144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (frh.):

Hæstv. forseti. Þá er ég mættur í seinni hálfleik. Það er fínt að fá hálfleik í ræðu.

Þegar ég gerði hlé á ræðu minni var ég að tala um kjördæmi mitt og hvað væri lítið gert í fjárlögum til þess að koma til móts við þann mikla vanda sem þar ríkir, t.d. hvað varðar að leggja peninga í menntamál og meiri peninga í uppbyggingu til þess að koma verkefnum af stað. Við í minni hlutanum lögðum fram tillögu um að 180 milljónir yrðu lagðar í Helguvíkurhöfn sem væri mjög gott. Vonandi tekur ríkisstjórnin það til greina.

Þegar ég tala um Suðurnes velti ég líka fyrir mér fiskistofumálinu. Það er áætlað að leggja 70 milljónir aukalega í Fiskistofu til þess að liðka fyrir flutningum norður til Akureyrar. Nú vil ég Akureyringum allt gott og efast ekki um að þeir eiga eftir að reka þessa stofnun vel ef hún fer þangað, en mér finnst afskaplega skrýtið hvernig þetta hefur verið gert, ekki síst í ljósi þess að hver einasti starfsmaður Fiskistofu er á móti flutningunum. Ákvörðunin virðist hafa verið tekin upp úr þurru í tveggja manna tali.

Ég fór að velta þessu svolítið mikið fyrir mér vegna þess að í október í fyrra, nokkrum dögum eftir þingsetningu, lagði hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir í Framsóknarflokknum fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela Alþingi að flytja Landhelgisgæsluna suður á Ásbrú. Þetta var afskaplega góð tillaga. Það var reyndar búið að gera einhverjar úttektir á þessu í tíð fyrri ríkisstjórnar en þetta var talið of dýrt og þar fram eftir götunum, ég man það ekki alveg. Flutningur Landhelgisgæslunnar þangað væri ágætt dæmi um mjög góðan gjörning vegna þess að Landhelgisgæslan hefur nú þegar töluvert af sínum búnaði og starfsstöð á Suðurnesjum. Það hefði eflt starfsemina að flytja hana á Ásbrú. Þá væri hún komin með allt sitt á einn stað, með fína höfn og aðstöðu á gamla varnarsvæðinu sem hentaði starfseminni frábærlega. Það sem meira er, starfsmenn eru almennt mjög hlynntir því að flytja hana, setja sig ekki upp á móti því. Þess vegna er það alveg ótrúleg ákvörðun að nefna allt í einu Fiskistofu og ætla að flytja hana norður á land. Aukafjárveitingin virðist vera til þess að reyna að kaupa starfsmenn til að flytja. Þetta er eitt af því sem stingur í stúf, finnst mér, í þessum fjárlögum.

Það er líka margt annað. Ég nefndi heilsugæsluna áðan og heilbrigðiskerfið. Ég held að það versta sem gæti gerst fyrir okkur væri ef heilbrigðiskerfið okkar hryndi algjörlega. Þá værum við í mjög slæmum málum. Við höfum verið að byggja upp heilbrigðiskerfi alla síðustu öld og vorum komin með ágætisheilbrigðiskerfi sem við erum núna að tefla í tvísýnu. Ég vona að ríkisstjórnin sjái að sér og bæti enn meira í þennan málaflokk og líka í menntamál.

Eitt af því sem talið er skynsamlegt, ef þjóðir eru að ná sér upp úr kreppu, er að leggja meiri peninga í menntakerfið. Besta fjárfesting fyrir nokkra þjóð er að leggja meiri peninga í menntun til þess að mennta þegna sína og auka nýsköpun og frumkvöðla í atvinnulífi. Það er að auka menntun. Vissulega hefur verið lagður peningur í skólana og háskólana. Þeir fá núna ágætisinnspýtingu, ef hægt er að segja svo, en samt er það ekki nóg. Tölur OECD yfir útgjöld til ársnema á háskólastigi sýna með óyggjandi hætti að Ísland er langt á eftir þeim löndum sem við viljum helst kenna okkur við, segir í tilkynningu frá háskólanum. Við erum ekki aðeins langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum, sem öll eru meira en 30% yfir OECD-meðaltalinu, heldur erum við undir meðaltalinu sjálfu. Það segir okkur að við þurfum að spýta í lófana. Þó að ríkisstjórnin sé að bæta aðeins í menntamál þá er það ekki nóg, eins og ég hef svo margoft sagt. Við þurfum að nota peningana sem við höfum til þess að rétta þennan kúrs af.

Það hefur verið deilt á okkur í minnihlutaflokkunum að koma fram með tillögur en engar hugmyndir að tekjuöflun. Við erum samt með hugmyndir að tekjuöflun. Við mælumst til dæmis til þess að það verði betra skatteftirlit og upplýsingar um skattaskjól verði keyptar. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra gefið leyfi til að þessar upplýsingar verði keyptar. Vonandi skilar það okkur einhverjum peningum. Þá eigum við að nota þá í þetta.

Svo er það arðurinn af Landsbankanum og veiðigjöldin margumræddu sem ríkisstjórnin lækkaði. Ríkisstjórnin lækkaði veiðigjöldin á sjávarútveginn verulega. Það er mjög sorglegt. Ég sagði það líka í ræðu í fyrra þegar við vorum að ræða fjárlögin að ég væri ekkert endilega talsmaður þess að skattleggja útgerðina í drep eða leggja á hana það miklar álögur að hún þyldi það ekki. En hún þolir það, það hefur sýnt sig á öllum hagnaðartölum í sjávarútvegi að hún þolir auknar álögur. Þær þurfa ekkert endilega að vera til langframa. Auðvitað eigum við samt sem áður sem þjóð að fá arð af auðlindunum okkar. Annað væri það nú. Ég nefndi það líka í fyrra í ræðu minni að sjávarútvegurinn hefði ekki alltaf verið rekinn með hagnaði á Íslandi og sjávarútvegsfyrirtækin hefðu oft verið í mjög miklum vandræðum. Þegar illa gekk var gengið fellt og útgerðinni bjargað svo að hún stæði í lappirnar, héldi sjó, en almenningur þurfti að borga það með gengislækkun. Nú rekum við sjávarútveg á heimsmælikvarða sem skilar gríðarlegum hagnaði og þá þarf þjóðin á því að halda að þessi atvinnugrein gefi meira af sér á meðan við erum að ná okkur upp úr þessum öldudal.

Það er eins með auðlegðarskattinn. Sumum finnst hann mjög ósanngjarn. Það má alveg deila um það, en það komu fram ágætistillögur frá Vinstri grænum um það hvernig væri hægt að breyta honum til hins betra þannig að ríkasta fólk landsins, sem er vel að því komið að vera ríkt, hefur unnið fyrir því, gefi meira til baka á erfiðum tímum. Þjóðin þarf á því að halda.

Við þurfum á því að halda að útgerðin og auðlindirnar okkar gefi okkur arð, eins og útgerðarmenn þurfa á okkur að halda. Það leiðir mig enn að því að útgerðin og fiskvinnslan eru samofin. Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekkert gert til þess að koma til móts við hina verst settu og lægst launuðu í samfélaginu, eins og með hækkun persónuafsláttar sem margir hagfræðingar, miklu vitrari menn í fjármálum og hagfræði en ég, hafa bent á til að koma til móts við hækkandi matarskatt.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur bent á að það sé verið að lækka vörugjöld, sem er frábært, það er frábært að það er verið að afnema vörugjöld, og að verið sé að lækka efra skattþrepið í virðisaukaskattinum þannig að heimilistæki eins og ísskápar og þvottavélar lækki. Þeir sem eru með lægstu launin í þjóðfélaginu eru ekki að kaupa sér ísskápa og heimilistæki úti í rafvörubúðum þó að þau lækki um 20%. Það er ekki þannig. Það er fólkið sem fer í Góða hirðinn og á bland.is að kaupa sér heimilistæki sem aðrir hafa notað í nokkur ár. Það er bara þannig. Menn verða að átta sig á því þegar þeir eru í stjórnmálum að þeir verða að stíga aðeins niður og líta til fólksins sem er að berjast úti í samfélaginu fyrir að framfleyta sér, eiga í sig og á. Það er mikil fátækt á Íslandi og mikið af fátækum börnum. Það er alvarlegt ástand. Íslendingar eru stoltir og eru ekkert að bera það á torg, en það er fullt af fólki sem á alveg gríðarlega erfitt í samfélaginu og það má ekki við því að matarskatturinn sé hækkaður nema það komi mjög sterkar mótvægisaðgerðir á móti, eins og hækkun persónuafsláttar. Það á enginn að þurfa að borga skatt á Íslandi sem er með undir 300 þús. kr. í tekjur. Það er mín skoðun.

Það er eins með rafmagnið sem er gott dæmi hér á Íslandi. Þjóðin framleiðir 17.000 gígavattstundir af rafmagni, þar af nota Íslendingar, eftir því sem mér er sagt, 3.500 því, 13.500 fara i stóriðju. Hverju skilar hún okkur í arð? Við eigum ekki einu sinni að þurfa að borga rafmagn, íslenskir þegnar, þegar við eyðum náttúruauðlindum okkar í að virkja. Ég er ekkert endilega á móti því að virkja þó að ég sé frekar grænn í mér en ég vil fá að vita hvað við fáum fyrir það ef við virkjum. Það má alveg ræða það hér eins og alls staðar annars staðar að þetta á að snúast um það hvað við fáum fyrir það sem við erum að virkja, ekki bara að virkja, virkja og virkja.

Við þurfum að huga vel að því þegar við förum í svona aðgerðir eins og með virðisaukaskattinn. Hvað erum við að gera? Á hverjum bitnar það helst? Við erum alveg hlynnt því í Bjartri framtíð að skoða virðisaukaskattskerfið og einfalda það, t.d. að vera bara með eina virðisaukaskattsprósentu. Svo er spurning: Er það gott? Við verðum þá einhvern veginn líka að vega upp á móti ókostunum með mótvægisaðgerðum.

Bækur hækka líka. Við erum að reyna að auka læsi í landinu til að mæta þeim vanda að 30% ungra drengja geta ekki lesið sér til gagns. Þá hækkum við ekki skatt á bókum. Það getur ekki verið gott. Við verðum að minnsta kosti að koma með einhverjar mótvægisaðgerðir.

Maður gerir sér alveg grein fyrir því að það að búa til fjárlög og leggja þau fram er ekkert létt verk. Ég hef reyndar ekki tekið þátt í því af því að ég er ekki í fjárlaganefnd og þessu er bara skellt fram eins og kom fram í ræðu áðan. Svona er frumvarpið og síðan fer það í nefnd, í þessu tilfelli í hér um bil þrjá mánuði. Af hverju bætum við ekki þessi vinnubrögð og gerum þetta markvissara þar sem allir taka þátt í að búa til fjárlögin. Af hverju er ekki strax eftir áramót farið að vinna að næstu fjárlögum þar sem fjárlaganefnd og fulltrúar flokka og ekki síst aðrir úti í samfélaginu leggja línurnar fyrir næsta fjárlagafrumvarp?

Ég hef margoft í ræðu á Alþingi hvatt til þess að ríkisstjórnin auki samráð við sveitarfélög, verkalýðsforustuna, fræðasamfélagið og alls konar samtök úti í samfélaginu til þess að reyna að búa til gott samfélag. Af hverju er ekki gert meira af því til að gera þessa vinnu okkar miklu markvissari og skapa meiri sátt um hina og þessa hluti? Ríkisstjórnin boðaði í stefnuyfirlýsingu sinni að hún ætlaði að auka samvinnu við verkalýðsfélögin og vinnumarkaðinn um þróun vinnumarkaðar og byggja upp stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hér logaði allt í verkföllum og verkfallshótunum síðasta ár. Lög voru sett á hinar og þessar stéttir, aðallega þó í ferðabransanum. Þingmenn voru kallaðir úr sumarfríi til þess að setja lög á starfsmenn í einkafyrirtækjum. Það finnst mér skrýtið.

Ég held að við getum gert miklu betur í þessari fjárlagavinnu. Við getum gefið okkur góðan tíma í að ræða þetta hérna, eins og við erum reyndar að gera núna. Mér finnst þessi umræða vera mjög hófstillt og góð. Nú eru fyrrum stjórnarandstæðingar sem nú eru stjórnarþingmenn að benda á hvernig þetta var á síðasta kjörtímabili. Það er alltaf verið að benda á hina og þessa. Það er mjög algengt hér í salnum að benda á hvað síðasta ríkisstjórn gerði, eins og það skipti einhverju máli. Það kemur ekki málinu við núna. (Gripið fram í.)— Já, það getur vel verið en ég hef aldrei getað skilið það.

Ég hef mikinn skilning á því hvernig ástandið var hjá síðustu ríkisstjórn. Auðvitað hefði örugglega mátt gera marga hluti betur en við erum engu bættari með því að benda alltaf á það sem var gert þá, ekki síst í ljósi þess hvernig staðan var. Mér finnst oft vanta í umræður hér, t.d. um fjárlög og annað, meiri sanngirni. Við eigum að vera sanngjarnari hvert við annað. Á síðasta kjörtímabili var mjög erfitt ástand á Íslandi, það var skelfilega erfitt. Mér finnst að stjórnarliðar mættu vera aðeins sanngjarnari í garð síðustu ríkisstjórnar sem barðist við mjög erfiða hluti og ekki síst við erfiða stjórnarandstöðu. Maður horfði oft á það sem á gekk hér í þingsal með skelfingu. Mér finnst umræðan núna vera miklu hófstilltari og betri. Ég er stoltur af að eiga þátt í því. Við þurfum að bæta andrúmsloftið á Alþingi, við þurfum að bæta vinnubrögðin og við þurfum að auka virðingu Alþingis, sýna fólkinu þarna úti að við séum að vinna fyrir það af heilum hug. Auðvitað erum við sennilega að gera það. Við erum með ólíkar leiðir að því og við rífumst endalaust um það.

Ég vona að ríkisstjórnin taki tillit til þeirra breytingartillagna sem við leggjum fram. Ég hef oft sagt það áður að stjórnarliðar ráða, þeir eru í meiri hluta, voru kosnir til þess. Þetta eru þeirra fjárlög og við viljum reyna að hafa áhrif á þau og koma með hugmyndir eins og um útvarpið okkar góða, Ríkisútvarpið. Maður er uggandi yfir því á hvaða leið við erum að fara með það líka, stofnun sem hefur fylgt okkur frá því 1930 í blíðu og stríðu. Það sem meira er, skoðanakannanir sýna það að 85% þjóðarinnar bera virðingu og vilja hafa sitt Ríkisútvarp. Ég hef aldrei getað skilið það að menn skuli vera að velta því fyrir sér hvernig fréttaflutningur í Ríkisútvarpinu er, hvort hann halli á hinn eða þennan. Ég er kannski bara svona vitlaus að ég fatta það ekki. Ég hef aldrei getað skilið það.

Við eigum að sammælast um það öllsömul hérna hvernig við viljum reka Ríkisútvarpið. Við erum núna með stjórn sem ég hitti á fundi í gær. Það var virkilega gaman að sjá þverpólitíska stjórn vera algjörlega einhuga um það hvað þyrfti að gera. Stjórnin hefur unnið hörðum höndum síðan hún var kosin í fyrra með þó nokkrum látum þar sem ekki voru allir á eitt sáttir um hvernig var verið að gera hlutina. Það kemur í ljós að þetta er öndvegisstjórn með alveg öndvegisútvarpsstjóra sem leggur sig allan fram um að bæta þessa stofnun. Stjórnin lagði til að ef útvarpsgjaldið yrði óbreytt og rynni óskipt til Ríkisútvarpsins væri hægt að snúa þessum rekstri við og gera hann mjög góðan. Er hægt að hafa það nokkuð mikið betra? Ég spyr mig.

Ég get ekki skilið, ég ætla kannski ekki að tala um hatur en svona óvild í garð Ríkisútvarpsins hjá vissum mönnum. Þetta er ekki síst ofboðslega ósanngjarnt gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Það hlýtur að vera alveg skelfilega erfitt að sitja undir ásökunum dag eftir dag frá fólki sem er við stjórn og ekki stjórn á Íslandi sem er að agnúast út í starfsfólk og að væna það um hina og þessa hluti, að það gangi erinda hinna og þessara manna. Það er ótrúlega sorglegt.

Ég segi oft sorglegt. Það er af því að það er dapurlegt hvar við erum stödd á Íslandi, þessi litla þjóð sem er ekki nema 320 þúsund manneskjur, gríðarlega rík af auðlindum og mannauði, að við skulum ekki geta einhvern veginn komið okkur betur saman, að við skulum vera eins og fótboltalið alltaf, stjórnmálaflokkar. Auðvitað greinir okkur á, það er eðli stjórnmála að menn takist á. Ég hef lært það í gegnum tíðina að bera virðingu fyrir öðrum, sama hvort þeir eru sammála mér eða ekki. Ég á í mjög góðu samstarfi við fólk í stjórninni og er mjög stoltur af því að vinna með þessu fólki sem leggur sig fram. En við þurfum að eyða þessari óvild og þessari umræðu í samfélaginu og standa betur saman. Ef við sýnum meiri samlíðan á Alþingi þá smitar það út frá sér. Sagði ekki nóbelsskáldið í Sjálfstæðu fólki að samlíðan væri upphaf hins æðsta söngs eða eitthvað svoleiðis? Það er þannig sem við eigum að tala á Alþingi líka. Við eigum að vera óhrædd við það.

Þetta er mjög mikilvægt að við rekum samfélag okkar og tökum á þessum vanda sem skapaðist hér og lærum af honum. Mér finnst stundum að það sé ekkert í starfi okkar á Alþingi sem miðar að því að reyna að bæta og læra af því sem gerðist. Mér finnst einhvern veginn eins og við séum á sömu leið. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var okkur bent á hvað við þyrftum að laga. Það virðist enginn fara eftir því. Það er sorglegt. Það sem fór í rannsóknarskýrslurnar er eitt sem hefur verið rifist um hér í sambandi við fjármálin; sumir kalla það fjáraustur. Það er allt í lagi að gagnrýna það en það sem mér finnst lykilatriði er að við lærum af því sem gerðist hérna á árunum fyrir hrun, hvernig samfélagið var byggt upp, og störfum meira saman í góðum anda, berum virðingu hvert fyrir öðru. Maður reynir að bera virðingu fyrir skoðunum annarra þó að maður sé ekki sammála þeim.

Ég vona að umræðan haldi áfram á þessum nótum, fjárlagaumræðan er á góðum nótum. Ég vona að fólk sé að fylgjast með þessu og átti sig á því að við erum að reyna að gera okkar besta, öllsömul. Fólk er að laga umræðuna. Við þurfum svo ofsalega mikið á því að halda að smita út í samfélagið að við séum samstiga um að rétta skútuna okkar við. Þá þurfa allir að taka þátt í því, allir að leggja sitt af mörkum og ekki síst þeir sem eiga nóg af peningum. Það er nú töluvert mikið af fólki á Íslandi sem á nóg af peningum. Það þarf að gefa meira af sér, eins og útgerðarmenn. Við þurfum að fá meira fyrir auðlindirnar okkar, eins og orkuauðlindina.

Nú er tími minn búinn, herra forseti, þannig að ég læt þessu lokið í bili.