144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Nú fer hv. þingmaður fyrir þverpólitískum þingmannahópi sem hefur það verkefni að endurskoða löggjöf í útlendingamálum. Þar sem ég hef átt sæti í hópnum er mér ljóst að það er mikið verk fyrir höndum. Vinnan hefur gengið vel þó að verkefnið hafi svo sem ekki minnkað eftir því sem við höfum skoðað það betur.

Nú skortir fjármagn í fjárlagafrumvarpinu eins og það er lagt fram til þess að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar með lagabreytingum og lagabreytingum sem í uppsiglingu eru og lúta sérstaklega að því að stytta málsmeðferð í útlendingamálum. Það kom mér á óvart raunar að þessi tala var ekki í frumvarpinu til að byrja með og heldur ekki í breytingartillögum meiri hlutans.

Ég vildi bara spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki með mér þeim (Forseti hringir.) áhyggjum að stöðu þessarar vinnu verði nokkuð þröngur stakkur skorinn ef fjármagn skilar sér ekki í samræmi við þær breytingartillögur minni hlutans sem hér hafa verið lagðar fram.