144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. þingmanni og ég vil alls ekki taka það frá tillögum í fjárlagafrumvarpinu að núna er gert ráð fyrir að skila til Ríkisútvarpsins þeim nefskatti sem hefur ekki skilað sér til Ríkisútvarpsins að öllu leyti. Eitt af neyðarviðbrögðunum við hruninu á Íslandi, allsherjarhruninu 2008, var að taka ákveðna tekjupósta á borð við nefskatt Ríkisútvarpsins, á borð við tryggingagjald, þetta er svona sem mér dettur strax í hug, og taka hluta þess inn í ríkissjóð. Í tillögunum er gert ráð fyrir að skila nefskattinum til Ríkisútvarpsins sem nægir því miður ekki til að leiðrétta uppsafnaðan vanda þar.

Síðan (Forseti hringir.) er í breytingartillögum meiri hlutans gert ráð fyrir, eiginlega gert því sem næst að skilyrði, að þessi nefskattur verði lækkaður á næstu árum.