144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt núna er það svo mikilvægt að forgangsraða rétt. Þá er það spurningin: Hvernig á að forgangsraða, hvað er brýnt og áríðandi? Það sem er brýnt og áríðandi núna er að leysa þessa læknadeilu, það er brýnt og áríðandi. Þangað eigum við að forgangsraða fé, og þingmaðurinn kinkar kolli til sammælis. Nákvæmlega. Þangað eigum við að forgangsraða skattfénu. Landsmenn eru klárlega sammála því. Allt þetta tal um að ef þeir fá rosalega mikla hækkun vilji allir aðrir fá eins mikla hækkun og að við gætum bara ekki orðið við því, ja, ég hef ekki séð betur en að ríkisstjórnin sé alveg tilbúin til að setja niður fótinn ef flugmenn eða einhverjir sem starfa fyrir Icelandair vilja fara í verkfall, þá er bara fótur settur fyrir það. Nei, við ætlum að hafa þetta svona og ekki öðruvísi.

Ég get alveg séð það að þessi ríkisstjórn mundi segja: Læknar fá miklu hærri launahækkun en aðrir. Við ætlum að forgangsraða í heilbrigðiskerfið og fjárfesta í starfsfólkinu og passa að við missum það ekki úr landi, út af því að það er klár vilji okkar kjósenda, klár vilji kjósenda allra flokka, allra landsmanna að forgangsraða þangað. Og ég er alveg viss um að ef ríkisstjórnin mundi stíga niður fæti og segja: Við ætlum að hafa þetta svona, þeir fá hærra, við trúum því að þjóðarsátt sé um það. Og þegar aðrir kæmu eftir á og segðu: Nei, við viljum líka fá, þá setti ríkisstjórnin niður fótinn og segði: Nei, það er ekki í boði. Ég held að það yrði bara mjög vinsælt. Ég held að þjóðin geti alveg verið sátt við það vegna þess að þjóðin vill forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Það er brýna og áríðandi málefnið núna að leysa deiluna við lækna og skapa kringumstæður fyrir að færa okkur í áttina að því sem ríkisstjórnin segir að hafi verið leiðarljósið sitt í ríkisstjórnarsáttmálanum. Leiðarljósið þar varðandi heilbrigðiskerfið er að vera með samkeppnishæft heilbrigðiskerfi við Norðurlöndin, nágrannaríki okkar.