144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við okkur blasi mjög alvarlegir hlutir þar. Við verðum auðvitað að hafa það í huga að á síðustu árum hefur starfsmönnum Ríkisútvarpsins fækkað að ég held um 100 manns, það í sjálfu sér er gríðarleg breyting á þeirri stofnun.

Ég hef verið mjög hrifinn af þeirri leið sem farin hefur verið í Danmörku í dagskrárgerð. Ég er ekki einn um það, verið er að sýna danska sjónvarpsþætti um allan heim. Menn átta sig kannski ekki á því að það er pólitíska ákvörðunin sem liggur að baki gerð slíks efnis.

Eina leiðin fyrir okkur sem samfélag til að bregðast við gerbreyttum veruleika í fjölmiðlun, aðgengi að niðurhali og ókeypis efni á netinu, felst fyrst og fremst í gerð innlends sjónvarpsefnis, vandaðs innlends sjónvarpsefnis sem er það eina sem getur keppt við það gríðarlega framboð af ódýru sjónvarpsefni sem í boði er. Ef við ætlum að nýta þessa stofnun til að varðveita þjóðararfinn (Forseti hringir.) þurfum við að gefa í frekar en hitt.