144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárþörf heilbrigðisþjónustu.

[13:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, það er unnið að mörgum verkum og það er mörg verk að vinna sömuleiðis í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Að meginstofni er íslensk heilbrigðisþjónusta afar góð, ég leyfi mér að fullyrða það, og ég þreytist ekkert á að undirstrika það í umræðunni um heilbrigðismál að benda á þá staðreynd að við Íslendingar búum sem betur fer að því að eiga mjög hæft fagmenntað fólk á öllum sviðum þeirra mála sem undir heilbrigðisþjónustu heyra. Verkefnin sem við er að glíma eru ærin. Vissulega liggur fyrir að sú stefna hefur verið mörkuð af stjórnarflokkunum að hefja það mikla verk sem liggur í endurbyggingu þjóðarsjúkrahússins. Einhvers staðar verður að byrja og ég leyfi mér að fullyrða að sú fjármögnun sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs gerir ráð fyrir því að hönnun við meðferðarkjarna fari á fullan skrið. Við gerum sömuleiðis ráð fyrir því að hefja framkvæmdir við sjúkrahótelið þegar líður á árið. Þetta eru stóru málin þar.

Varðandi þá fyrirspurn sem kemur fram hjá hv. þingmanni um það hvort ég sé ekki sammála henni um að brýn þörf sé á fjármagni inn í íslenska heilbrigðisþjónustu, ég tek undir það í öllum megindráttum. Ég hef sagt það við umræður um heilbrigðismál í tengslum við fjárlög að ég yrði ekki í nokkrum einustu vandræðum með að ráðstafa til muna hærri fjárhæðum en ætlaðar eru á fjárlögum hvers árs til heilbrigðismála, það væri leikur einn að eyða fé í það. En það vill bara svo til að ég ber aðra málaflokka sömuleiðis fyrir brjósti eins og flestir aðrir þingmenn, hvort heldur það er á sviði samgöngumála, menntamála eða annarra opinberra þátta sem ríkinu er ætlað að sinna til hagsbóta fyrir borgara landsins. (Forseti hringir.) En í grunninn er ég sammála því að það er brýn þörf fyrir fjármuni víða í íslenskri heilbrigðisþjónustu.