144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða nokkur þau atriði sem ég náði ekki að fara yfir í fyrri ræðu minni um fjárlagafrumvarpið og sérstaklega þá þætti sem lúta að hinni stóru mynd umhverfismálanna eins og hún birtist í frumvarpinu.

Ég vil byrja á að rifja upp að á þinginu 2011–2012 var samþykkt þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Þar voru lagðar til 50 tillögur. Eins og kemur fram í greinargerð með þeirri ágætu þingsályktunartillögu, hverrar 1. flutningsmaður var hv. þáverandi þm. Skúli Helgason, birtist þar sú framtíðarsýn, með leyfi forseta, „að Ísland skipi sér fremstu röð á alþjóðavettvangi sem grænt hagkerfi, með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni.“

Nú er það svo að kannski stærstu viðfangsefni okkar sem erum í stjórnmálum núna snúast um umhverfismál, snúast um loftslagsbreytingar, breytingar sem eru að verða á veðurfari án þess að við virðumst fá neitt við ráðið. Ríki heims hafa hist á alþjóðavettvangi og komið sér saman um ákveðin markmið, en það hefur eigi að síður verið mjög erfitt að draga alla með í þann leiðangur af því hagsmunirnir undir niðri eru svo miklir, til að mynda hagsmunir þeirra sem framleiða olíu og selja olíu og sama má segja um kol og annað slíkt. Það hefur samt verið alvöruviðfangsefni stjórnmálanna, ekki síst í Evrópu, að horfa á aðrar leiðir til þess að tryggja það sem stundum er kallað grænn vöxtur, þ.e. vöxtur sem gengur ekki um of á auðlindir sem við eigum.

Þingsályktunartillagan um græna hagkerfið var samþykkt á sínum tíma með öllum greiddum atkvæðum eins og við munum sem vorum á þingi þá. Þingsályktunin snýst um að stefnumörkun sem byggi á sjálfbærri þróun eigi sér stað í raun á öllum sviðum hins opinbera rekstrar en líka í samfélaginu öllu. Hún snýst um að skapa ný störf um leið og við bætum lífsskilyrði, tökum ákvarðanir af virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérstöðu, að við tökum tillit til grundvallarreglna Ríó-yfirlýsingarinnar, svo sem mengunarbótareglunnar og varúðarreglunnar, og tryggjum lýðræðislega aðkomu almennings að allri ákvarðanatöku um umhverfismál og framkvæmdir. Þetta græna hagkerfi var ekkert sem við fundum upp á Alþingi Íslendinga, þótt það sé nú gaman að tala vel um okkur. Þetta er þema sem hefur verið, getum við sagt, lykilatriði til að mynda í norrænu samstarfi, í evrópsku samstarfi og snýst um það hvernig við getum tryggt góð efnahagsleg skilyrði og gott samfélag án þess að ganga um of á auðlindirnar.

Þær 50 tillögur sem voru samþykktar voru hýstar hjá forsætisráðuneytinu. Ég hef því miður ekki tíma til þess að fara yfir þær, en þetta eru mjög fjölbreyttar tillögur. Þær snerust til að mynda um sjálfbærni, menntun, breytingar á nýsköpunarkerfinu þannig að betur yrði stuðlað að svokallaðri grænni nýsköpun, að ríkissjóður tæki markvisst upp og breytti yfir í endurnýjanlega orkugjafa og svo mætti lengi telja.

Ég held eftir á að hyggja að tillagan um græna hagkerfið sé eitt mikilvægasta mál sem við höfum samþykkt hér á þinginu af því viðfangsefnið er svo stórt, eins og ég nefndi áðan. Þegar við skoðum hins vegar þær lausnir sem við höfum öll verið að reyna að vinna að, og ég efast ekkert um að víðast hvar vinna stjórnmálamenn að þessum lausnum af heilum hug, sjáum við að þær hafa ekki skilað nægilegum árangri. Þær hafa ekki skilað nægilegum árangri í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðlaga samfélagið, getum við sagt, að breyttum aðstæðum.

Því er það áhyggjuefni þegar fjárlagafrumvarp ársins í ár er skoðað að þetta verkefni sem var vistað hjá forsætisráðuneytinu á sínum tíma, græna hagkerfið, er nú ekki lengur sjálfstæður liður heldur heitir það núna í frumvarpinu: Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Á þann lið eru settar 133,6 millj. kr. Ég hef að minnsta kosti ekki orðið vör við það að næg svör hafi fengist við því hvernig nákvæmlega eigi verja þeim fjármunum, því þeir eru að stórum hluta nýttir til ágætra og verðugra verkefna á sviði húsafriðunar og vernd menningarminja og fornleifa. Þar af leiðandi eru þetta fjármunir sem að mínu viti ættu heima í húsafriðunarsjóði og fornminjasjóði sem einnig heyra undir sama ráðuneyti. Ekki hafa fengist skýr svör um það. Hæstv. forsætisráðherra fer með þennan málaflokk og hann hefur ítrekað verið spurður í þessum sal nákvæmlega hvaða hluti þessara fjármuna eigi að renna til þeirra 50 verkefna sem skilgreind eru í hinni samþættu þingsályktun sem var ástæðan fyrir því að til þessa liðar var stofnað. Svör hafa verið heldur rýr, gott ef hér var ekki sagt að fátt væri grænna en íslenskur torfbær. Ég sé satt að segja ekki hvernig það tengist hinni samþykktu þingsályktun um grænt hagkerfi sem snýst um að umbreyta hagkerfinu þannig að við vinnum á öllum vígstöðvum að því að ná þeim markmiðum sem við viljum ná í sjálfbærri þróun þannig að við göngum ekki á umhverfi, efnahag eða samfélag og skilum því í raun og veru jafn góðu til komandi kynslóða, ef ekki í betra horfi.

Hæstv. forsætisráðherra hefur talað fyrir því á alþjóðavettvangi að það sé mjög mikilvægt að við tökum forustu í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá velti ég því fyrir mér, og það kemur einnig fram í ágætu minnihlutaáliti hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, af hverju ekki er lögð meiri áhersla í fjárlagafrumvarpinu á aðgerðir í loftslagsmálum. Ríkisstjórnin starfar jú samkvæmt aðgerðaáætlun um loftslagsmál sem var lögð fram í kjölfarið á samþykkt laga um loftslagsmál á síðasta kjörtímabili. Þar er til dæmis kveðið á um að efla eigi almenningssamgöngur, en eigi að síður eru framlög til almenningssamgangna skorin niður í frumvarpinu. Það er líka verið að lækka hér losunargjald vegna gjaldskyldrar losunar gróðurhúsalofttegunda, þvert á stefnumótun sem tekin hefur verið á alþjóðavettvangi. Raunar voru það sérstaklega þau mál sem hæstv. forsætisráðherra var að ræða þegar hann gaf yfirlýsingu sína um að hér ætti Ísland að vera í fararbroddi, þær aðgerðir sem var verið að samþykkja á alþjóðavettvangi um að þessi gjöld ætti að hækka til að reyna að koma hömlum á losun gróðurhúsalofttegunda. Hæstv. forsætisráðherra kvittaði upp á þá yfirlýsingu og stendur svo hér að fjárlagafrumvarpi þar sem þessi gjöld eru lækkuð.

Í aðgerðaáætluninni er kveðið á um að efla skuli rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum og veitir ekki af. Það er ekki nóg að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, það er líka mjög mikilvægt að við vinnum að því hvernig við getum betur nýtt aðra orkugjafa, endurnýjanlega orkugjafa. Í tekjujöfnunarfrumvarpinu núna er hins vegar kveðið á um að tekjur af uppboðnum losunarheimildum skuli renna óskiptar í ríkissjóð í stað þess að helmingur þeirra renni til loftslagssjóðs, en hlutverk sjóðsins er einmitt að fjármagna rannsóknir og þróun á sviði loftslagsvarnatækniþróunar og nýsköpunar. Í þessu fjárlagafrumvarpi þar sem stefnan er mörkuð með því að segja okkur til um hvernig eigi að veita fjármunum ríkisins til verkefna, er því beinlínis verið að taka fjármuni úr verkefnum á sviði rannsóknar og nýsköpunar á sviði loftslagsmála. Loftslagssjóður er skorinn niður og boðað er frumvarp til breytinga á lögum í því skyni.

Mér finnst einhvern veginn, virðulegi forseti, að hv. þingmenn stjórnarflokkanna sem væntanlega hyggjast styðja fjárlagafrumvarpið hafi kannski ekki sett það í samhengi við þessi stóru viðfangsefni, en þó er ég viss um að ef við hér værum spurð væru allir reiðubúnir að gera sitt til þess að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir og skrifað upp á markmið í þeim efnum. Við erum þegar farin að greina breytingar og hver skýrslan á fætur annarri rennir styrkari stoðum undir það að þessar breytingar eru að eiga sér stað. Stjórnvöld víða um heim eru ekki aðeins að ræða aðgerðir til þess að draga úr losun heldur líka aðgerðir til þess að gera samfélögin í raun tilbúnari til að takast á við veðurfarsbreytingar. Því miður er það nú svo að hin betur stæðu samfélög munu væntanlega verða betur í stakk búin til að takast á við loftslagsbreytingar. Það eru hin fátækari samfélög sem munu verða verst úti, séu þau þannig í sveit sett. Þau samfélög þar sem innviðirnir eru rýrastir verða væntanlega helstu fórnarlömb þessara breytinga. Við sjáum heldur ekki neina stefnu tekna hér í þá átt að stíga markvissari skref til að auka hlutfall vergra þjóðartekna til þróunarsamvinnu, sem væri annað mikilvægt skref til að berjast gegn loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi áttað sig á alvarleika þessa máls. Við ættum auðvitað að vera að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu verulega áherslu á að fylgja eftir þeim hugmyndum sem voru settar fram og samþykktar, þvert á flokka, í tillögunni um græna hagkerfið. Ég get rifjað upp þingmönnum til skemmtunar og gamans að ekki aðeins var þetta samþykkt heldur voru flutningsmenn til að mynda hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson sem allir sitja í ríkisstjórn núna, ásamt fjöldamörgum öðrum hv. þingmönnum. Þessar tillögur voru samþykktar, en fjármunirnir sem voru ætlaðir í þær eru nú undir þessum loðna lið sem er ætlað að gera allt mögulegt og ætti miklu betur heima í sjóðum sem eru faglega skilgreindir í lögum til að annast verkefni á sviði húsafriðunar og fornminjaverndar. Við ættum að vera að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu núna, miðað við þá stöðu sem er uppi, skýra áherslu á hið græna hagkerfi, skýra áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum og skýra áherslu á að setja loftslagsmálin sem einn af okkar stefnupóstum inn í þróunarsamvinnu og auka þau framlög. Þetta er nokkuð sem við höfum séð gert hjá öðrum þjóðum. Ég nefndi það raunar í sérstakri umræðu sem hér var á dögunum um þróunarsamvinnu að til að mynda Bretar, þjóð sem raðar sér fyrir neðan okkur þegar OECD mælir lífsgæði og lífskjör þjóða, fóru alla þá leið á síðasta ári að setja hlutfallið í 0,7% sem er það markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um hlutfall af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Það var samþykkt í Bretlandi. Stundum vill fólk setja þessi málefni undir í einhverja vinstri/hægri pólitík, en það er undir hægri stjórninni í Bretlandi sem þetta markmið er samþykkt. Það finnst mér gefa okkur vísbendingu um að við ættum aldeilis að geta sameinast um að taka markvissari skref í áttina að þessu markmiði.

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða háskólamálin af því að ég náði ekki að nefna þau í fyrri ræðu minni. Ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu sem ég bíð enn eftir svari við sem lýtur að stefnumótun um fjárveitingar til háskóla. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir ákveðnar úrbótatillögur hvað varðar fjárveitingar til háskóla sem mér finnst af hinu góða, en ég hef hins vegar áhyggjur af því að frá því fyrir hrun hafa íslenskir háskólar í raun ekki verið samkeppnishæfir hvað varðar fjárveitingar, ekki samanborið við aðra háskóla innan OECD og hvað þá norræna háskóla sem við helst viljum bera okkur saman við. Það sést að við erum þar bæði langt á eftir fjárveitingum á hvern nemanda þegar við berum okkur saman við aðra háskóla á Norðurlöndum og undir meðaltali OECD-ríkjanna þegar kemur að fjárframlögum á hvern nemanda í háskólum.

Á síðasta kjörtímabili, í kringum aldarafmæli Háskóla Íslands, var hér samþykkt ákveðin stefna sem naut víðtæks stuðnings þingmanna úr öllum flokkum um að nú skyldi setja markið á að leiðrétta þessa stöðu og fara markvisst í að bæta fjárframlög til háskólastigsins þannig að við nálguðumst meðaltal OECD-ríkja og í framhaldinu fjárveitingar á hvern nemanda á Norðurlöndum. Í fjárlagafrumvarpinu er í raun ekkert gefið upp um það hverjar fyrirætlanirnar eru um að ná þessu markmiði sem ég held að sé alveg gríðarlega mikilvægt, því fjárfesting í menntun og rannsóknum er líklega besta fjárfesting sem nokkurt samfélag getur gert.

Ég gagnrýndi það í fyrra þegar fjárveitingar voru skornar niður að afar illa ígrunduðu máli til bæði Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Ríkisstjórnin sá að sér og breytti um stefnu, en það segja mér allir sem ég tala við í þessum geira, hvort sem er innan rannsóknageirans eða nýsköpunargeirans, að það sé algerlega óásættanlegt að ekki ríki meiri sátt um fjárveitingar í þessum málaflokki en svo að þegar ný ríkisstjórn kemur til valda sé byrjað á að hverfa frá þeirri viðbót sem búið var að setja í sjóðina, viðbót sem var löngu tímabær, til þess eins að geta sett hana aftur inn á næsta ári. Þetta er auðvitað ekki hægt að vinna í slíku umhverfi fyrir þá sem starfa að verkefnum sem kalla á langtímastefnumótun, sem kalla á það sem við köllum stundum þolinmótt fjármagn, þ.e. fjármagn til lengri tíma. Síðustu fjárveitingar byggðu á stefnumótun Vísinda- og tækniráðs, sem er ekki pólitískt apparat, og fjárveitingarnar núna byggja á stefnumótun Vísinda- og tækniráðs en samt var ekki hægt að standa við áður boðaðar þær fjárveitingar, svo merkilegt sem það er. Við þurfum auðvitað að ná því í þessum sal að geta fylgt stefnunni eins og hún hefur verið mörkuð þótt skipt sé um ríkisstjórn. Hið sama þarf að gerast í háskólamálum.

Ég velti því upp hver sé stóra línan í háskólamálum. Ég mundi til að mynda vilja sjá málefni Listaháskólans skoðuð sérstaklega. Minni hlutinn gerir tillögu um framlag vegna húsnæðismála Listaháskólans, en hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir hefur einmitt lagt fram fyrirspurn um þau mál. Ég lagði einnig fram fyrirspurn í fyrra til hæstv. menntamálaráðherra um húsnæðismálin og fékk þau svör að unnið væri að greiningu á framtíðarhúsnæði fyrir Listaháskólann en það þyrfti 4 milljónir til að klára þá greiningu. Það eru ekki lagðar til neinar 4 milljónir til að klára þá greiningu, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né í tillögum meiri hlutans. Mun hv. þingmaður Elsa Lára Arnardóttir fá þau svör eins og ég að 4 milljónir vanti og því miður sé ekkert hægt að gera í húsnæðismálum Listaháskólans? Tímabundið framlag sem veitt var til skólans vegna húsnæðismála, vegna þess að húsnæði hans hafi beinlínis verið ófullnægjandi og ekki uppfyllt neinar kröfur sem við gerum til nútímaskólahúsnæðis, var skorið niður. Það eru engir viðbótarfjármunir settir til að klára fyrrnefnda greiningu og skólinn er í raun og veru dreifður um alla borg í mikilli óvissu. Ég sakna þess að þetta mál sé ekki tekið sérstaklega fyrir í fjárlagafrumvarpinu og mörkuð ákveðin stefna um húsnæðismálin. Ég sakna þess líka að sjá ekki einhverja útreikninga á framlögum á hvern nemanda í Listaháskólanum. Þessir nemendur eru að sjálfsögðu dýrir, þetta eru fáir nemendur í verknámi, getum við sagt, eða verklegu námi að hluta, og ég átta mig ekki á því af hverju þeir reikniflokkar hækka ekki til jafns við aðra reikniflokka sem metnir eru hjá öðrum háskólum.

Að síðustu hvað varðar háskólana. Í tillögum meiri hlutans eru settar að mig minnir 15 milljónir til þess að standa undir kostnaði við rektoraskipti í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Síðast þegar ég spurði hæstv. menntamálaráðherra um þessi mál gaf hann til kynna að hann hefði haft fyrirætlanir eins og okkur er kunnugt um að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, en meiri hluti þingsins mundi í raun marka stefnuna með fjárveitingum sínum. Þá veltir maður því fyrir sér hvort hér þurfi ekki einmitt að ræða stefnuna í þeim málum áður en hún er mörkuð með fjárveitingum. Nú er búið að ákveða sem sagt 15 milljónir í rektoraskipti. En hver er framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri þar sem fækkað hefur fólki allt frá 2006 um helming? Er ætlunin að sameina meira af starfseminni á Hvanneyri eða þétta samstarfið við Háskóla Íslands? Mér finnst þarna eins og svo víða annars staðar skorta á ákveðnar upplýsingar um stefnu stjórnvalda, hvort sem um er að ræða Listaháskólann eða Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Maður gæti sagt: Það er sama hvaðan gott kemur, og að sjálfsögðu er gott að fá viðbótarfjármuni inn í háskólana og ég styð það, en það þarf einhver stefna að liggja undir. Við þurfum að vita hvert við erum að fara og hvað við ætlum að gera til að mynda í málefnum Hvanneyrar, í málefnum Listaháskólans og svo mætti lengi telja.

Stóra myndin: Hvernig ætlum við að ná því markmiði að auka framlög á hvern nemanda þannig að við náum meðaltali OECD? Við settum markið á 2016 þegar við ræddum þessi mál 2011. Nú er verið að setja fjárlög fyrir árið 2015 og ég sé þetta stefnumið hvorki birtast hér né í fjárlögum síðasta árs. Heilbrigðismálin hafa augljóslega fengið mikinn tíma í þessari umræðu, en við skulum líka átta okkur á því að fjárfesting á þessum sviðum er, eins og ég sagði áðan, nánast ávísun á aukinn vöxt til framtíðar. Ég nefndi grænan vöxt í upphafi máls míns og ég ætla að ljúka ræðu minni með því að minna á að þegar við skoðum lífsgæði og vöxt í löndunum í kringum okkur er nánast hægt að setja samasemmerki á milli þess hvernig löndunum vegnar og þeirra fjárfestinga sem þau setja í rannsóknir og menntun. Ég velti fyrir mér hvort við séum að vanrækja þennan málaflokk í þessari umræðu, vanrækja það að kalla eftir stefnunni. Við í stjórnarandstöðunni höfum að sjálfsögðu reynt að kalla eftir stefnunni frá stjórnarmeirihlutanum, en hún er enn á huldu verð ég að segja. Við sjáum í raun og veru engin merki um að það eigi að standa við gefin fyrirheit. Þá er nauðsynlegt að við ræðum forsendur þeirra ákvarðana því ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkar fjárfestingar — ég tala hér um fjárfestingar en ekki fjárveitingar — munu skila sér margfalt til baka fyrir íslenskt samfélag. Við höfum komist upp með það að hafa náð í raun og veru ótrúlegum árangri fyrir litla fjármuni. Við höfum fengið mikið fyrir lítið þegar kemur að fjárveitingum til háskóla og rannsókna. Þannig getum við ekki haldið áfram út í eitt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.