144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Samráð og samstarf, þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni sem gerir hvítbók hæstv. menntamálaráðherra að umtalsefni. Það er vissulega rétt að þar er lögð áhersla á læsi sem ég held að allir hér inni hljóti að vera sammála um, enda var læsi sett inn fyrir allnokkru síðan sem einn af grunnþáttum í nýrri menntastefnu og nýrri aðalnámskrá í kjölfar þess að ný lög voru sett fyrir öll skólastig.

Það hefur komið mér á óvart, hafandi tekið þátt í umræðum á Alþingi veturinn 2007–2008 um alla þessa lagasetningu um skólastigin, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, þar sem tekist var á um ákveðin grundvallaratriði. Það náðist nokkuð góð sátt í lok þeirrar umræðu þótt við getum sagt að enginn hafi verið alveg fullkomlega ánægður, frekar en nokkru sinni, en við vorum meira að segja nokkuð sátt við að það var hlustað á ýmis sjónarmið. Það var hlustað á ýmis sjónarmið og eftir stóð þessi löggjöf sem tvímælalaust var ákveðin tíðindi í skólasögunni á Íslandi. Í kjölfarið var haldið áfram að vinna námskrár fyrir öll skólastig. Síðan þykir mér vera komið dálítið á skjön inn í þessa vinnu.

Í kaflanum um menntamál í stjórnarsáttmálanum er vitnað til umræðunnar sem átti sér stað árið 2006, sem sagt áður en þessi nýju lög voru sett veturinn 2007–2008 sem samflokksmaður hæstv. menntamálaráðherra stóð fyrir í menntamálaráðuneytinu. Það kom mér strax á óvart þegar ég sá að það þurfti að seilast allt aftur til ársins 2006 í stjórnarsáttmálanum þegar umræðu um menntamál bar á góma. Það kemur á daginn að það á að bakka út úr þeirri hugsun sem til að mynda einkennir lagaumhverfi framhaldsskóla núna, sem er áherslan á fjölbreytni og faglegt sjálfstæði skóla. Það virðist eiga að bakka út úr þeirri hugsun og setja talsvert einstrengingslegri ramma um skólastarfið. Á hvaða samráði er það byggt? Það er að minnsta kosti ekki byggt á því samráði sem bæði var í kringum lagasetninguna og svo vinnslu námskrár.