144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það kemur mér ekki á óvart að hv. þingmaður sé jákvæður í garð markaðar með losunarheimildir. Ég er það í sjálfu sér líka, en ég hef hins vegar efasemdir um að það eitt og sér dugi til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég tel að stjórnvöld, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, þurfi að stíga mjög róttæk skref í því að endurskoða stuðningskerfi sitt við rannsóknir og nýsköpun sem ég nefndi áðan, til þess að umbreytingin yfir í endurnýjanlega orkugjafa geti orðið hraðari.

Ég velti því fyrir mér til að mynda hvað við erum að gera hér á landi. Nú var ég að lesa fregnir frá þeim sem flytja inn rafbíla á Íslandi sem eru ekki sáttir við þær aðgerðir sem lagðar eru til í tekjuöflunarhlið fjárlaganna, sem ég gerði ekki að umtalsefni af því við erum að ræða fjárlagafrumvarpið. En verðum við ekki að vera vakandi fyrir því, eins og við samþykktum í þingsályktun um græna hagkerfið, að hvað sem við gerum í stefnumótun okkar þá séum við alltaf að einhverju leyti að leggja okkar af mörkum til að ná þeim markmiðum? Kolefnislosun okkar Íslendingar fer fyrst og fremst fram í gegnum samgöngur, annars vegar frá fiskiskipaflotanum og flugflotanum og hins vegar bílaflotanum. Við gætum náð miklum árangri með því að gera duglegt átak t.d. í því að skipta út bílaflotanum. Hvað gerir hið opinbera í þeim efnum? Hefur hið opinbera sett sér markmið um að skipta yfir í rafbíla þegar verið er að kaupa nýja bíla fyrir hið opinbera? Væri það ekki gott skref til að byrja með? Þarna held ég að við þurfum að horfa á alla þessa þætti.

Ég verð að nota tímann í lokin til að ræða aðeins læsi barna. Jú, þetta er áhyggjuefni. Þess vegna beitti ég mér fyrir því sem menntamálaráðherra að læsi væri einn af grunnþáttum nýrrar námskrár, sem það hafði ekki verið áður, því læsi er auðvitað grunnurinn að öllu. Við þurfum að horfa til þess að fjölbreytt efni sé í boði fyrir börn til að lesa, að börn verði læs á texta og skilji texta, því það er auðvitað stóra áhyggjuefnið líka þegar börn skilja ekki eða njóta ekki textans. Þannig að ég (Forseti hringir.) tek undir með hv. þingmanni. Þetta er undirstöðuatriði. Og þegar ég gerði þetta að umtalsefni áðan í svari mínu um hvítbók menntamálaráðherra þá er það ekki (Forseti hringir.) af því að ég sé ekki sammála þessu markmiði, en ég (Forseti hringir.) er ekki viss um að aðgerðir fjárlagafrumvarpsins (Forseti hringir.) styðji við það.