144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er óskaplega feginn því að umræðu um fjárlagafrumvarpið skuli ekki vera lokið, vegna þess að það er ljóst að gera þarf á því umtalsverðar breytingar þannig að við það verði unað. Kemur þá að sjálfsögðu fyrst upp í hugann verkfall lækna á Landspítalanum. Ég hef áður sagt í ræðustól í umræðu um fjárlagafrumvarpið og aðrir hafa gert slíkt hið sama, að í rauninni er fráleitt að gera hlé á þingstörfum fyrr en læknaverkfallið er leyst. Menn hafa stundum orðað það svo að við séum komin út á brúnina í því efni, við erum komin fram af brúninni.

Nú er búið að keyra það mál í slíkan rembihnút að þörf er á sameinuðu átaki okkar hér sem höldum um fjárútlát ríkisins og þar þarf að bæta meira í þannig að Landspítalinn og heilbrigðiskerfið ráði við þær launahækkanir, ekki aðeins hjá læknum heldur ýmsum öðrum heilbrigðisstéttum, svo unnt sé að reka kerfið. Þetta snýst ekki bara um launamál, þetta snýst um aðbúnað á sjúkrahúsunum, tækjakost, en kannski fyrst og fremst álagið sem hvílir á starfsfólkinu eftir áralangan samdrátt.

Nú munu vera 200 færri stöðugildi á Landspítalanum en voru fyrir efnahagshrunið 2008, en þegar verst lét hafði stöðugildum fækkað um 400, ef ég man rétt. Þetta eitt veldur miklu álagi á þá sem starfa á sjúkrahúsunum og þetta er nokkuð sem við þurfum að taka á sameiginlega. Við sitjum ekki við samningaborðið, við ræðum ekki hér um prósentur eða smáatriði í kjarasamningunum en við höldum um fjárútlát ríkisins og um það fjallar einmitt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og það er okkar allra að axla ábyrgð í því efni. Ég tek því undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt til að ekki verði gert hlé á þingstörfum fyrr en deilan er leyst. Við vitum hvað bíður okkar ef svo fer ekki því að læknar hafa sameinast um þá ákvörðun í dag, held ég að það hafi verið, að efna til harðra verkfalla, strangra verkfalla á nýju ári ef ekki verður komið ásættanlega til móts við kröfur þeirra.

Hv. þingmaður Steinunn Þóra Árnadóttir ræddi hér undir lokin áðan um sjúkratryggingar og almannatryggingar. Hún hefur tekið þann þátt mjög rækilega til umræðu í þessari fjárlagaumræðu á Alþingi og er það mjög vel. Menn staðnæmdust við liðinn Sjúkratryggingar Íslands í fjárlagafrumvarpinu og með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að spara á þeim lið en þar segir að gert sé ráð fyrir því að fjárheimild verði lækkuð um 305 millj. kr. á liðnum vegna aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar, eins og það heitir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær aðgerðir fela annars vegar í sér hækkun á viðmiðunarfjárhæðum í greiðsluþátttökukerfi almennra lyfja og hins vegar að útgjöld vegna S-lyfja verði felld undir greiðsluþátttökukerfi vegna almennra lyfja. Það hefur í för með sér að tekin verði upp greiðsluþátttaka notenda S-lyfja til samræmis við önnur lyf.“

Þeir sem þjást af alvarlegum sjúkdómum, krabbameini, alvarlegum gigtarsjúkdómum vita hvað S-lyf merkja betur en þau okkar sem hafa ekki átt við slíka sjúkdóma að stríða. Þetta eru alvarlegustu sjúkdómarnir sem nú er verið að fara í kerfisbreytingar á. Það tel ég vera mjög alvarlegt mál fyrir utan hitt að við erum komin allt of langt inn á þá braut sem við fórum að feta okkur fyrir hálfum öðrum áratug eða svo, að auka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Við erum komin núna í fimmtung, um 20%. Það er ekki þessari ríkisstjórn að kenna, ekki síðustu ríkisstjórn og ekki heldur hinni sem sat þar á undan, nema að hluta til. Það er okkur öllum að kenna að láta kerfið þróast í þá veru og það er afar slæmt. Ég tel það vera mjög alvarlegt að núna skuli meðvitað farið inn í þennan farveg í fjárlagafrumvarpinu, það er stórkostlega alvarlegur hlutur.

Hitt sem hv. þingmenn hafa staldrað við og gert að sérstöku umræðuefni eru kjör öryrkja; ég nefni hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Steinunni Þóru Árnadóttur sem hefur hamrað á mikilvægi þess að bæta kjör öryrkja, þeirra sem standa lakast að vígi í samfélaginu. Þegar frumvarpið kom upphaflega fram var gert ráð fyrir hækkun á almannatryggingum um 3,5% en fallið frá hálfu prósenti. Hvers vegna? Jú, fyrirséð þykir að verðbólga verði ívið lægri á komandi ári en áður hafði verið gert ráð fyrir. En er eitthvað í lögum sem bannar að kjör öryrkja séu bætt umfram þau lágmarksviðmið sem sett voru hér með lögum árið 1997? Nei, það er ekkert sem bannar það. Þá voru sem betur fer sett lög þess efnis að þróun greiðslna úr almannatryggingakerfinu skyldi hafa viðmið í almennri launaþróun en þó aldrei vera lægri en verðlagsþróun. Það var litið á þetta sem mjög mikilvægan öryggisventil fyrir það fólk sem býr við lökustu kjörin. Ég man að einn ötulasti talsmaður fyrir þeim kerfisbreytingum var hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn og við tókum mörg hjartanlega undir með honum í þessu efni. Áður höfðu almannatryggingar átt að fylgja þróun lægstu taxta hjá Dagsbrún. Það hafði alltaf held ég verið skert, það hafði nánast aldrei verið staðið við þann lagabókstaf og þótti mönnum framför liggja í þessu.

Núna hafa öryrkjar hins vegar haldið því fram að þeir hafi dregist aftur úr í kjaraþróun á undangengnum árum og nú væri lag að bæta kjör þeirra. Við erum ekki að tala um háar upphæðir, við erum að tala um 300–400 millj. kr. fyrir mjög stóran hóp af fólki, þann hóp sem þúsund krónurnar, 5 þús. kr., 10 þús. kr., skipta mjög miklu máli, miklu meira máli en sá krónufjöldi skiptir þá sem búa við miklu betri kjör í okkar landi.

Ég hef áður kvatt mér hljóðs í þessari umræðu og vikið að ýmsum þáttum þess sem er að gerast í skólakerfinu. Þar virðist vera tekin meðvituð ákvörðun um að vísa fólki sem er orðið 25 ára í einkaúrræði í menntakerfinu. Það á helst ekki að fá aðgang að almennum framhaldsskólum og skal leita sér menntunar hjá einkaaðilum. Þetta er gert á mjög sérstæðan hátt. Það er skorið niður við skólana og síðan er skólunum gert að forgangsraða nemendum þegar þeir opna sínar dyr og þeim er gerð kirfilega grein fyrir því að þeir sem eru komnir yfir 25 ára aldur séu ekki í forgangsröð, þeir skuli standa úti í kuldanum. Þannig er þetta gert. Það er ekki sett nein regla um að þessu fólki sé úthýst, ég spurðist fyrir um það hjá starfsfólki allsherjar- og menntamálanefndar þingsins. Nei, þetta hafði ekki verið tekið til umfjöllunar þar en þetta er gert bakdyramegin hjá fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytinu væntanlega. Þannig er þetta lagt upp.

Ég staldraði við löggæsluna í landinu. Við viljum held ég öll auka öryggi lögreglumanna, almennra lögreglumanna, ekki með byssum, ekki með því að vopnavæða þá, heldur með því að hafa þær sveitir það vel mannaðar að þær þurfi síður að beita valdi. Ef margir lögreglumenn eru saman er síður hætta á því að komi til alvarlegrar valdbeitingar. Það er lykilatriði. Þess vegna var sameinast hér á þingi um þingsályktunartillögu og hún samþykkt 19. júnímánaðar árið 2012, um að sett yrði niður nefnd sem fjallaði sérstaklega um mönnun lögreglunnar og öryggisstaðla í landinu. Settur var niður vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytisins þá um haustið sem leiddi það í ljós að niðurskurður hjá löggæslunni nam 2,8 milljörðum á ári, sem hafði þýtt mannfækkun og verri aðstöðu fyrir löggæsluna almennt. Þetta liggur síðan á vinnsluborði þeirrar nefndar sem skipuð var á grundvelli þingsályktunarinnar sem ég vék að. Hún skilar áliti inn í þingið og það er rætt að mig minnir í marsmánuði árið 2013, rétt fyrir kosningar. Álitsgerð nefndarinnar er samþykkt hér, það á stíga stór skref til að bæta stöðu lögreglu.

Hvað er að finna í þessu frumvarpi? Hjá nánast öllum lögregluembættum í landinu er raunlækkun og þar er forgangsraðað. Þar er fyrst vísað til þess að skorið skuli niður gagnvart fórnarlömbum kynferðisofbeldis og í öllu sem lýtur að forvarnaaðgerðum á því sviði, það skal skorið niður. Þetta er tekið fram hjá ríkissaksóknara, það eru skert útgjöld til ríkissaksóknara að raunvirði, til ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík, á Suðurnesjum. Alls staðar er þetta tekið fram og stafað út: Byrja á því að skera niður allt sem snýr að kynferðisofbeldi og markvissum forvarnaaðgerðum í því efni. Við beiðni sem okkur hefur borist frá Evrópuráðinu um að halda áfram að styrkja forvarnastarf og vitundarvakningu á þessu sviði er skellt skollaeyrum, við öllu slíku. Það er skorið niður, það er látið fara. Og þarna höfum við verið að ná árangri. Íslendingar hafa staðið framarlega í sveit hvað þessi mál varðar. Við eigum aðild að Lanzarote-samningnum sem glæpavæðir alvarlegt áreiti við lítil börn. Við höfum undirgengist hann og við höfum breytt okkar lögum í þá veru. Við vorum fyrst til að setja á laggirnar Barnahús, gerðum það 1998, settum Barnaverndarstofu á laggirnar 1995. Við eigum formann í nefndinni sem stýrir Lanzarote-starfi og þegar við erum beðin um að efla þetta starf — nei. Allt strikað út, allt saman strikað út.

Við létum ekki peninga af hendi rakna beint til Evrópuráðsins í þessu skyni eins og Evrópuráðið óskaði reyndar eftir, við gerðum það ekki, en við settum þá í þessi verkefni. Við settum þá í vitundarvakningu og í verkefni hjá lögregluembættunum og hjá ríkissaksóknara. Það var okkar leið til að ná þeim markmiðum fram og þetta er mönnum kunnugt um í Strassborg. En þetta er allt strikað út.

Það mætti halda áfram en ég vil leggja áherslu á að það er eitt sem er sagt og annað sem síðan er veruleikinn. Ég staðnæmist sérstaklega við löggæsluna af því að hún stendur mér nálægt vegna þess að ég kom að því sem innanríkisráðherra á sínum tíma og tók því afar vel þegar þingið (Gripið fram í.) allt, þar á meðal þáverandi stjórnarandstaða, samþykkti tillögu um að efla löggæsluna. Ég sagði þá að við skyldum ekki gera okkur von um að þetta yrði lagað í einu vetfangi. Ég tók það fram í umræðunni hér á þingi, það hlyti að taka að einhverju leyti mið af stöðu ríkissjóðs, en það væri vilji, eindreginn vilji þingsins að stefna í þessa átt. Þess vegna eru það vonbrigði að við skulum draga þarna úr og skera niður þessi útgjöld að raungildi, þrátt fyrir allar yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Almannasamgöngur, þar er skorið niður. Gerður var samningur við sveitarfélögin á suðvesturhorninu, ekki bara í Reykjavík heldur öll sveitarfélögin, Mosfellssveit, Garðabæ, Kópavog, Seltjarnarnes, Hafnarfjörð, Álftanes, hygg ég, um átak í almenningssamgöngum upp á 1 milljarð á ári. Það átti að verðbæta þann milljarð en það hefur ekki verið gert og það hefur verið kroppað í hann á hverju einasta ári og það er afar slæmt. En í ofanálag hefur framlag til samsvarandi verkefna á landsbyggðinni verið skert. Niðurskurðurinn nemur samtals um 300 millj. kr. til almannasamgangna í landinu. Þarna kemur inn í endurgreiðsla á olíugjaldi sem fellur niður samkvæmt öðrum lögum og það er mjög bagalegt líka vegna þess að landshlutasamtök sveitarfélaga sem hafa gert samninga við Vegagerðina um almannasamgöngur í sínum landshlutum hafa skuldbundið sig iðulega í verðtryggðum samningum sem þau verða að standa við. Þess vegna er slæmt þegar ríkið bregst með þessum hætti og sker niður framlag til almenningssamgangna.

Ég hef gagnrýnt það að undir samgöngum sé einn liður um vegaframkvæmdir við Bakka. Þetta ætti að vera undir iðnaðarráðuneytinu því að þetta er stuðningur við iðnaðarframleiðslu, við átak í atvinnuuppbyggingu. Ég gagnrýni harðlega að það skuli vera hér undir samgöngum. Hvað skyldi þetta vera há upphæð? Það er svipuð upphæð sem á að fara á einu ári í Bakka og nemur upphæðinni sem fer til styrkingar á almannasamgöngum á suðvesturhorninu, 850 millj. kr. Er það búið eftir eitt ár? Nei. Svo verður það líka árið þar á eftir, árið 2016 og 2017. Þetta eru það miklar framkvæmdir sem við erum að leggja af mörkum í þágu atvinnustarfsemi á tilteknum stað. Og þetta er gert þegar menn segja að ekki séu til peningar til að greiða læknum, sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki á heilbrigðisstofnunum landsins hærri laun. Þetta er nokkuð sem ég á afskaplega erfitt með að sætta mig við og mun að sjálfsögðu ekki greiða atkvæði með því fjárframlagi sem þarna er gert ráð fyrir, fyrir utan að ég mótmæli því að það sé sett undir þennan lið í fjárlagafrumvarpinu og sé skilgreint sem samgöngumál. Þetta er ekkert nýtt af nálinni. Þetta á rót aftur til síðustu ríkisstjórnar og ágreiningurinn er þverpólitískur, hann er ekki bundinn við þessa ríkisstjórn, en mér finnst eðlilegt að slíkur ágreiningur sé ræddur hér í þessu samhengi líka.

Við höfum rætt þau þingmál sem tengjast þessu frumvarpi og snúa að tekjuöflun ríkisins og ákefð stjórnvalda í að neyslustýra meiri sykri og gosdrykkjavöru ofan í landslýð á kostnað hollustuvöru sem að sjálfsögðu verður dýrari eftir að virðisaukaskattur á matvæli verður hækkaður úr 7% í 11%. Þar sem tími minn er útrunninn eftir fimm sekúndur læt ég mínu máli lokið hér með.