144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég tók eftir því að hann nefndi hér OECD-skýrslu sem verið hefur í fréttum í dag, kallaði hana hinn endanlega dauðadóm yfir brauðmolahagfræðinni. Ég held að ég geti tekið undir það. Alþjóðastofnanir almennt hafa einmitt verið að setja fram þessa sýn á undanförnum árum og ekki er langt síðan Sameinuðu þjóðirnar bentu á að vaxandi ójöfnuður í heiminum væri líklega mesta ógnun við frið í heiminum, bæði ójöfnuður milli svæða og ójöfnuður innan svæða, milli einstaklinga. Við erum að horfa á vaxandi ójöfnuð þar sem þeir allra ríkustu eiga svo fjarskalega stóran hlut af öllu auðmagni í heiminum og það auðmagn leynist víða. Það er eitt af því sem við höfum bent á hér í minni hlutanum á Alþingi að það eru færi til þess að sækja þetta fjármagn, til að mynda það sem er geymt í skattaskjólum, með því að kaupa þær upplýsingar sem þar hafa staðið til boða.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í það. Eitt af því sem hefur verið bent á er að ríki heimsins þurfi að ná aukinni samvinnu um skattheimtu til að hægt sé að vinna gegn ójöfnuði þvert á landamæri því að ójöfnuður er ekki eitthvað sem við geymum bara hér heima hjá okkur. Við sjáum það einmitt á því hvernig þeir sem mest auðæfi eiga hafa geymt þau hér og þar um heiminn.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þetta því að þetta er ein af tillögum minni hlutans. Sú tillaga er afmörkuð og snýst fyrst og fremst um að kaupa upplýsingar um eignir í skattaskjólum og bæta þannig skattheimtu. En hver á framtíðarsýn okkar að vera í þessum málum? Hvernig ætlum við almennt að koma í veg fyrir þetta? Við vitum að fólk mun líklega ávallt reyna að finna göt á kerfinu. Hvernig ætlum við að stuðla að því almennt að það verði ekki tilhneigingin í framhaldinu?