144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nýlega var sýndur sjónvarpsþáttur á Stöð 2 þar sem umfjöllunarefnið var fátækt. Viðmælendur áttu það allir sameiginlegt að vera leigjendur. Það sem einkennir íslenskan leigumarkað er óöryggi, hátt verð og fólk neyðist jafnvel til að búa í húsnæði sem vart telst mannsæmandi.

Mörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefur orðið tíðrætt um að skuldaleiðréttingin sé ósanngjörn, að ekki sé um almenna aðgerð að ræða og að stjórnarþingmenn telji heimili leigjenda ekki vera heimili. Ég tel að hér sé fyrst og fremst um útúrsnúning að ræða, ekki endilega skoðanaágreining þegar betur er að gáð. Skuldaleiðréttingin er einn liður af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs um skuldavanda heimilanna. Annar liður í aðgerðaáætluninni er breytingar á húsnæðiskerfinu.

Við sem hér sitjum í dag erum örugglega sammála um hversu mikilvægt það sé að hér sé gott húsnæðiskerfi þar sem fólk hefur raunverulegt val um hvort það vilji kaupa eða leigja húsnæði. Ég get því glatt áhyggjufulla þingmenn með því að hæstv. húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir mun leggja fram frumvörp um breytingar á húsnæðiskerfinu á vorþingi varðandi húsnæðisbætur, félagslega húsnæðiskerfið, almennt um húsnæðislán á markaði og húsnæðissamvinnufélög svo að eitthvað sé nefnt.

Jólin eru á næsta leiti, hátíð ljóss og friðar. Úti geisa stormar og frostið bítur í. Á sama tíma og við stöndum hér í misgáfulegu karpi og jafnvel útúrsnúningum er fólk sem á í alvörunni ekkert heimili, meðal annars vinir okkar á Austurvelli og fleiri sem enginn sér. Það er sárt til þess að hugsa að sumir eigi hvergi höfði að halla. Við eigum að nýta tímann okkar hér í að láta verkin tala í þágu þeirra sem þess þurfa.