144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst það svolítið athyglisvert og dálítið alvarlegt hvernig er verið að umgangast RÚV í fjárlagafrumvarpinu. Hugmyndin með útvarpsgjaldsfyrirkomulaginu og að RÚV fái fullnægjandi framlög til að sinna sinni þjónustu af útvarpsgjaldi, sem er nefskattur, er meðal annars að vernda sjálfstæði RÚV. Það er svolítið vandasamt verkefni fyrir ríkisvald að reka fjölmiðil og þetta er það fyrirkomulag sem hefur verið ákveðið hér að sé best til þess að vernda sjálfstæði miðilsins, að hann geti sinnt störfum sínum. Núna er verið að auka fjárveitingu til RÚV og það er gert með skilyrðingu, RÚV verður að gera ákveðna hluti til þess að fá þessa peninga. Hér er því um að ræða beint inngrip í sjálfstæði stofnunarinnar. Mér finnst þetta algjört stílbrot á heilbrigðu umhverfi í kringum Ríkisútvarpið.