144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um heiðurslaun til listamanna og ég er alfarið á móti því. Ég tel ekki að stjórnmálamenn eigi að ákveða hvað er list og hvað er ekki list í landinu (Gripið fram í: Heyr, heyr.) eða veita heiðurslaun til ákveðinna manna vegna þess að þeir eru með þóknanlegri list en aðrir. Ég hef ekkert á móti þeim listamönnum sem þarna eru, það er ekki þannig, en ég tel að þetta grundvallarsjónarmið eigi að koma fram. Við, hv. þingmenn, stjórnmálamenn, eigum ekki að ákveða hvað er list í landinu heldur á almenningur að gera það með því að styðja þá list. Auk þess vantar fólk inn á listann. Einn frægasti listamaður Íslands, Björk Guðmundsdóttir, er ekki á listanum. Ég held að hún hafi alveg unnið til þess eins og flestir aðrir.