144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hún er svo ógæfusöm, þessi ríkisstjórn, að þingmenn sem eru ekki valdir í hana fá óstöðvandi hláturskast í beinni útsendingu. Það er svo ólánlegt sem frekast getur orðið hvernig ríkisstjórninni hefur haldist á hinum svokallaða reisupassa. Fyrir einu og hálfu ári var almenn stemning og velvild gagnvart hugmyndinni en nú hefur þetta mál algerlega forklúðrast, það verður að segjast alveg eins og er. Það er enginn skilningur á því hjá hæstv. ríkisstjórn sem menn hafa verið að benda henni á í heilt ár, síðast í síðustu umræðum um fjárlög, að ekki sé sett nægt fjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, enda hvað kom í ljós? Hún þurfti að sækja 380 milljónir á fjáraukanum. Og hvað ætli komi í ljós næsta haust í þessum efnum? Ætli það verði ekki væn fúlga sem menn þurfa þá að leiðrétta mistök sín með?