144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

almannavarnir o.fl.

412. mál
[23:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. s. fór reyndar að miklu leyti yfir það sem mig langaði að nefna við hæstv. innanríkisráðherra, en mig langaði líka að bjóða hæstv. ráðherra velkomna til starfa og þakka sérstaklega fyrir það viðhorf að frumvarpið þurfi mikla og breiða samstöðu því það er dagsatt. Hér er um að ræða ansi miklar valdheimildir. Þegar ég skoða sérstaklega 10. gr. frumvarpsins velti ég svolítið fyrir mér hvaða valdheimildir sé ekki verið að veita frekar en hverjar sé verið að veita. Þetta er ansi víðtækt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skortur á þessu valdi hingað til. Eins og hv. þingmaður fór yfir hérna áðan þá hefur Ísland gengið í gegnum ýmislegt á ansi löngum tíma og maður hefði haldið að við værum þegar komin á þann stað að geta ráðið við náttúruhamfarir án þess að þurfa það sem virðist vera frekar gerræðislegar valdheimildir enda hannaðar fyrir slíkar uppákomur að það þurfi eiginlegt gerræði. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvort það sé alveg kýrskýrt að raunveruleg þörf sé á þessu, ekki að það sé bara æskilegt heldur að það sé þörf á því.