144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

423. mál
[23:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Í sjálfu sér fagna ég tilefni frumvarpsins og mér finnst jákvætt að halda áfram því verklagi sem var sett í gang í febrúar 2012 með breytingum á lögunum, sem tryggðu fjármögnun að hluta til þriggja ára við gerð hættumats vegna eldgosa. Við erum að framlengja það og bæta þó við öðrum þáttum, eins og ég skil frumvarpið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra. Verkefni og viðfangsefni ofanflóðasjóðs, þegar hann var settur á stofn til að byrja með, var að gefnu og mjög hræðilegu tilefni á sínum tíma og markmiðið var að tryggja það eins ítarlega og nokkurs væri kostur að Íslendingar gætu varist þeirri miklu náttúruvá sem ofanflóð geta orðið og hafa sýnt sig að hafa geta orðið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvar við erum stödd í þessum verkefnum, vegna þess að þau eru að nokkrum hluta tæmandi, þ.e. að tryggja ofanflóðavarnir með viðunandi hætti um allt land. Sér ráðherrann fyrir sér að það gerist í náinni framtíð að verkefnum ofanflóðasjóðs ljúki miðað við þessa löggjöf frá 1995? Og sér hann fyrir sér í kjölfarið á því, og væntanlega vill hann þá líka svara því í síðara andsvari, að hlutfall og verkefni ofanflóðasjóðs verði endurskoðað í kjölfarið á þeim gleðilegu tímamótum sem vonandi verða einhvern tíma í fyllingu tímans, að við sjáum fyrir endann á þessum mikilvægu verkefnum?