144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem var málefnalegt eins og hv. þingmanns er von og vísa. Hann nefnir það sem hv. þingmaður hefur nefnt oft áður, að við ættum í rauninni að enda á þessum lögum, þau væru það síðasta sem við gerðum. Það er alveg sjónarmið en ég held samt að ef við ætlum að ná því sem hv. þingmaður nefnir þyrftum við að fara þá leið sem ég veit ekki hvort aðrar þjóðir gera, að taka þetta upp sem fyrsta mál þegar þing kemur saman. Hv. þingmaður nefndi dæmi af eldgosinu sem er alveg hárrétt hjá honum. Ég held að enginn viti hvernig það muni þróast. Við skulum vona að það sé í rénun og muni ekki valda meiri skaða en það hefur valdið nú þegar. Ég tek að vísu fram hér að þetta sé eðli máls samkvæmt gert upp í lok árs og síðan verði gengið frá því endanlega í lokafjárlögum. Ef við ætluðum að sjá til þess að í þessum fjárauka væri alveg tryggt að við værum með endanlegt uppgjör varðandi eldgosið þyrftum við að hittast hér á gamlaárskvöld og kannski mundi það ekki duga til. Við þyrftum væntanlega að gera það í byrjun árs en sú leið er farin, getum við sagt, að þessu er lokað í lokafjárlögum.

Hins vegar erum við að ræða ný lög um opinber fjármál. Þetta er eitt af því sem við þyrftum að ræða í því samhengi. Út af þeim tímaramma sem við höfum fram að jólum þurfum við að vinna skipulega að því að loka þeim málum sem þarf að loka, en það eru alveg málefnaleg sjónarmið að við ættum að gera þetta sem allra síðast. Mér finnst áhugaverð hugmyndin að við gerðum þetta í byrjun hvers árs.