144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það er ekkert greypt í stein að fjáraukalög þurfi bara að vera ein. Í sumum löndum sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að ríkisfjármálum eru menn með tvenn fjáraukalög, eins og í Svíþjóð. Þar er almenna reglan sú að menn eru ekki að bæta í útgjaldaflokka heldur ganga fjáraukalögin út á, og eru í samræmi við fjárlög sænska ríkisins, að þar fá viðkomandi ráðherrar víðari heimildir þegar kemur að einstaka málaflokkum. Þá eru færri fjárlagaliðir og stærri upphæðir, en hins vegar geta menn líka millifært innan fjárlagaliðanna í viðkomandi ráðuneyti og milli ráðuneyta. Þess vegna eru menn tvisvar á ári með fjáraukalög til að framkvæma slíkar millifærslur.

Eðli málsins samkvæmt eigum við að hafa sem allra minnst í fjáraukalögum. Það hefur verið plagsiður á Íslandi að hafa stór fjáraukalög. Það er kannski stærsta einstaka ástæðan fyrir agaleysi í ríkisfjármálum. Við erum svo sem að stíga skref með þessum fjáraukalögum og þeim síðustu í þá átt að minnka þennan plagsið, en það má aldrei slaka á. Það er annar þátturinn hvað þetta varðar, að maður vildi helst ekki sjá neitt í fjáraukalögum, en síðan er hitt að þau þurfa ekki að vera ein og það gæti alveg verið hugmynd, ef við komumst að þeirri niðurstöðu að við viljum fara svipaða leið og frændur vorir, í það minnsta Svíar, að hafa þau þess vegna tvisvar á ári. Þá væri millifærsla á milli aðila í ríkisbúskapnum því að það er auðvitað engin regla að það þurfi að tæma hvern einasta lið. Ef það er afgangur einhvers staðar er kannski sjálfsagt að nota hann annars staðar ef nauðsyn (Forseti hringir.) ber til.