144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst hv. þingmaður leggur hér út af orðum hæstv. menntamálaráðherra held ég að rétt sé að það komi fram að ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann hafi ekki talið að endurskoðun stjórnarskrárinnar væri tóm vitleysa, hins vegar hafi hann orðið fyrir vonbrigðum með þá aðferð sem var notuð við þá endurskoðun framan af og talið að hún hefði ekki skilað nógu miklu.

Hv. þingmaður spurði þriggja spurninga, fyrst hvort ég teldi endurskoðun stjórnarskrárinnar tóma vitleysu. Ég tel svo ekki vera.

Spurningin um hvort stjórnarskráin þarfnist heildarendurskoðunar kom næst. Svarið við því er: Já, ég tel svo vera og hef raunar oft rætt þau mál á vettvangi Alþingis og víðar, enda stendur nú slík vinna yfir.

Ég skipaði fyrir alllöngu síðan þá nefnd sem hv. þingmaður vísaði til í þriðju spurningu sinni þar sem spurt var hvaða væntingar ég hefði um starf nefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég hef heilmiklar væntingar um vinnu þeirrar nefndar og tel að hún muni skila góðum tillögum að endurbótum á stjórnarskránni, m.a. er varðar eignarhald á auðlindum og beint lýðræði. Já, ég geri miklar væntingar til þeirrar vinnu en vil þó taka fram að íslenska stjórnarskráin hefur að langmestu leyti reynst Íslendingum vel frá 1944. Ekki verður stjórnarskránni kennt um þær efnahagsþrengingar sem Ísland hefur gengið í gegnum á síðustu árum eða áratugum. Það er rétt að sýna stjórnarskránni þó þá virðingu að láta það fylgja sögunni að þó að jafnvel megi bæta hana hefur hún reynst okkur vel á undanförnum áratugum.