144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Allir nefndarmenn skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara, ég mun koma að því síðar, en ég ætla að fara yfir álitið. Við fengum fjölmarga aðila á okkar fund sem eru tilgreindir í nefndarálitinu og óþarfi er að telja upp.

Með frumvarpinu eru lagðar til þríþættar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Í fyrsta lagi er lagt til að fjölga nefndarmönnum um tvo í ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar samkvæmt 15. gr. að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Í nefndinni munu þá sitja sjö nefndarmenn og sex þeirra tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fyrirséð að þeir tveir nefndarmenn sem bætast við munu koma annars vegar frá Reykjavíkurborg og hins vegar frá einu sveitarfélagi í Suðvesturkjördæmi. Í öðru lagi er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða til að milda áhrif af breyttri aðferðafræði við útreikning fasteignamats fyrir atvinnuhúsnæði. Í breyttri aðferðafræði felst að horfið er frá markaðsleiðréttu kostnaðarmati yfir í tekjumat sem byggist á upplýsingum af leigumarkaði fyrir atvinnuhúsnæði, eins og nánar er fjallað um í athugasemdum við frumvarpið. Breytingin hefur í för með sér að fasteignamat fyrir atvinnuhúsnæði getur hækkað mjög snarpt um áramótin þar sem mikil innbyggð skekkja var komin í kerfið. Með frumvarpinu er lagt til að breytingin verði tekin í þremur skrefum til að milda áhrif hennar fyrir atvinnulífið. Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu annað nýtt ákvæði til bráðabirgða sem mun gilda þann tíma sem einstaklingum verður heimilt að nýta séreignarsparnað sinn til að greiða inn á fasteignaveðlán skattfrjálst. Í ákvæðinu felst að þeim tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem til koma vegna bankaskattsins verði dreift til sveitarfélaga í samræmi við hlutdeild þeirra í heildarútsvarsstofni ársins á undan.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við grundvöll fasteignamats sem skattlagningarheimildar og að í því fælist of rúmt framsal skattlagningarvalds til stjórnvalda. Nefndin bendir á í þessu sambandi að um lögbundna skattlagningarheimild er að ræða. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, skal árlega leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá og að stofn til álagningar fasteignaskatts sé fasteignamat þeirra, samanber 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, annast Þjóðskrá Íslands mat fasteigna. Við matið beitir Þjóðskrá þeim aðferðum sem koma fram í 27. gr. laganna og samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skal við ákvörðun matsverðs eftir föngum finna tölfræðilega fylgni gangverðs við ýmsar staðreyndir um seldar eignir, svo sem stærð, gerð, búnað, stað o.s.frv., og sennilegt gangverð ákvarðað með útreikningum á grundvelli þeirra vísbendinga. Sömu aðferð við útreikning fasteignamats er beitt varðandi allar sambærilegar eignir og ef aðili sem á lögvarða hagsmuni af matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat getur sá hinn sami krafist nýs úrskurðar um matið. Lagagrundvöllur fasteignaskatts hefur verið sá sami í langan tíma, um lögbundna skattlagningarheimild er að ræða sem nefndin telur ekki ástæðu til að ætla að brjóti gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er fyrrnefnt ákvæði um mildun áhrifa af nýju fasteignamati en það kann að leiða til nokkurrar hækkunar fasteignaskatta fyrir tilteknar eignir en lækkunar fyrir aðrar eignir en heildaráhrif breytinganna munu þó leiða til hækkunar um 13,7% umfram verðlagshækkanir. Ákvæðið er niðurstaða samráðs milli hagsmunaaðila sem eru fyrst og fremst sveitarfélögin og aðilar í atvinnurekstri sem eiga atvinnuhúsnæði. Ljóst er að sveitarfélögin verða af nokkrum tekjum vegna ákvæðisins en að sama skapi mundi skattbyrði vegna atvinnuhúsnæðis aukast mjög snarpt ef nýja fasteignamatið tæki að fullu gildi.

Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er ákvæði sem er ætlað að dreifa ákveðnum hluta tekna jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna á grundvelli hlutdeildar þeirra í heildarútsvarsstofni ársins á undan. Í því felst að tekjurnar dreifast í hlutfalli við stærð. Er þetta lagt til vegna tekjumissis sem sveitarfélögin verða fyrir vegna skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögum um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að sú upphæð sem um ræðir nægi ekki til að bæta sveitarfélögunum umræddan tekjumissi. Þá felur ákvæðið í sér að hluti tekna jöfnunarsjóðs er tekinn út fyrir sviga og honum ráðstafað á annan hátt en samkvæmt þeim reglum sem gilda um úthlutanir úr sjóðnum. Þannig mundi meira koma í hlut stærri sveitarfélaga en þeirra minni. Nefndin telur ákvæðið þurfa nánari skoðunar við og leggur því til að svo stöddu að það falli brott. Nefndin leggur því til eftirfarandi breytingu: B-liður 2. gr. falli brott.

Ég hef rakið hér efni nefndarálitsins en vil taka það fram að jafnvel þó að öll nefndin sé sammála um að fella b-lið 2. gr. á brott þá er það gert að svo stöddu. Við teljum að ákvæðið þurfi lengri meðferð. Við höfum verið sammála um það í nefndinni að ef atriði eru óljós þá viljum við og erum sammála um að við þurfum að leggja mikið á okkur til að skýra þau, gefa okkur tíma til þess og velta við öllum steinum. Það er einmitt það sem bæði fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu eru sammála um að gera í umhverfis- og samgöngunefnd.

Að lokum vil ég þakka nefndinni allri fyrir góða vinnu og þann samtakamátt sem nefndin sýnir enn einu sinni.