144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira. Öll sjónarmiðin hafa komið fram sem ég held að þurfi að vera uppi á borðinu. En ég verð þó að viðurkenna að mér finnst nálgun þingmannsins vera afar ósanngjörn. Þegar hann fullyrðir að hægt sé og skynsamlegt að fara með jafn róttækum hætti og hér er gert í jöfnunarsjóðinn þegar fram hafa komið ábendingar um að verið sé að mismuna sveitarfélögum og að það eigi bara að samþykkja það einn, tveir og bingó, þá er ég ósammála því, þá erum við bara innilega ósammála. Ég er glaður, verð ég að viðurkenna, yfir því að þingmenn úr öllum flokkum í nefndinni deili þeirri skoðun með mér.