144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

sáttanefnd í læknadeilunni.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að þessi tillaga sé til skoðunar þótt hæstv. ráðherra telji hana ekki tímabæra. Ég vil minna á það að hér hafa á undanförnum mánuðum verið sett lög á kjaradeilur. Ég hef verið andsnúin slíkri lagasetningu því ég hef talið hana of gróft inngrip inn í kjaradeilur. Ég tel að sáttanefnd sé mun vægara inngrip en til að mynda slík lagasetning og eðlilegra að nýta sér slík úrræði ef svo fer fram sem horfir. Því eins og hæstv. ráðherra bendir réttilega á, ef verkfallsaðgerðir halda áfram eftir áramótin sjáum við fram á enn þá alvarlegri stöðu og nógu alvarleg er hún orðin samt með hundruð aðgerða sem hlaðast upp á biðlistum, verulega röskun á þjónustu og eins og ég sagði áðan gríðarlegt óöryggi í samfélaginu. Það er hlutverk okkar á Alþingi, ekki síst hlutverk hæstv. ríkisstjórnar, að tryggja þann stöðugleika sem almenningur í landinu á skilið þannig að fólk geti treyst á(Forseti hringir.) að það geti gengið að heilbrigðisþjónustu. (Forseti hringir.) Það gerum við meðal annars með því að tryggja (Forseti hringir.) að hingað snúi læknar aftur, (Forseti hringir.) til að mynda úr námi.