144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru ákveðin vonbrigði að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki sjá ástæðu til að laga meira í þessu frumvarpi en eingöngu fyrirsögn þess. Mjög margt í þessu frumvarpi mætti laga og þyrfti að laga. Við fórum ágætlega yfir það við 2. umr. og ég er þess vegna mjög undrandi á því að hér séu þingmenn tilbúnir að samþykkja að ljúka málinu með þeim hætti að verð á nauðsynjavöru muni hækka strax eftir áramót. Það þýðir ekki að tala um einhverjar mótvægisaðgerðir sem felist í því að menn lækki efra þrepið á virðisaukaskattinum þegar staðreyndin sem blasir við þeim sem tekjulægstir eru, og landsmönnum öllum, er að verð á mjólk, fiski og kjöti mun hækka. Það er ákvörðun þessarar ríkisstjórnar og þess stjórnarmeirihluta sem hér situr að gera þetta, þ.e. að hækka verð á þessum nauðsynjavörum. Hvers vegna? Það er gert til einföldunar að því er meiri hlutinn segir. En hver er einföldunin í þessu tilfelli? Hún er sú að við erum áfram með tvö þrep. Menn fara úr 7% í 11%, það er engin einföldun í því, við erum áfram með tvö þrep. Þá segja menn að þetta sé gert til að komast fyrir leka út úr kerfinu, þ.e. að reyna að koma í veg fyrir að fólk svindli á kerfinu. Ég held að ég geti fullvissað menn hér inni um að þeir sem kaupa mjólk, kjöt og fisk eru ekki að svindla á kerfinu. Það er alls ekki þar sem lekinn á sér stað, þar er fólk eingöngu að kaupa nauðsynjavörur sem það þarf að kaupa til að hafa í sig og á og sjá fyrir sér og sínum. Mér finnast rökin sem menn hafa borið hér á borð afar fátækleg. Það eina sem þá stendur eftir er að menn þurfa nauðsynlega á að halda því fjármagni sem út úr þessari hækkun kemur. Og hvað eru menn að fara að fjármagna með hækkununum út úr hækkuninni á neðra þrepi virðisaukaskattsins? Jú, menn ætla að fjármagna það að þeir hafa losað sig við tekjur af veiðigjaldi. Það þarf að fjármagna það gat einhvern veginn. Það þarf að fjármagna það gat sem myndast líka þegar menn taka ákvörðun um að framlengja ekki auðlegðarskattinn. Þegar menn taka ákvarðanir um að framlengja ekki auðlegðarskatt, lækka veiðigjöldin en hækka neðra þrepið á virðisaukaskatti eru þeir að sýna áherslurnar. Menn telja greinilega að breiðu bökin séu heima hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar og eru hvað háðastir því að verðlag á þessum vörum sé hvað lægst.

Það þýðir ekki að koma síðan hér upp og segja: Þið settuð þessa lokadagsetningu á auðlegðarskattinn. Það er bara ekki hægt að segja það við okkur vegna þess að við höfum sagt margoft að ef við þyrftum að velja þarna á milli er algjörlega klárt hvað við veldum. Við mundum aldrei fara þá leið að hækka virðisaukaskattinn á matvælunum með þeim hætti sem hér er verið að gera. Þegar menn velja á milli hvað þeir vilja skatta og hvar bera niður þegar kemur að álögum á fólkið í landinu er hér búið, eins og ég fór fram með áðan, að taka ákvörðun um að minnka álögur á útgerðina með því að lækka veiðigjöldin, minnka álögur á þá efna- og eignamestu á Íslandi en hækka álögur á nauðsynjavöru í staðinn. Það kemur hlutfallslega verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

En það er fleira sem verið er að gera hér. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja þá meinloku sem býr með fólki í þessum sal hvað varðar sykurskattinn. Menn afsala sér tekjum af mjög góðri skattlagningu að því leytinu til að hún er fullkomlega sambærileg við mengunarskatta, bifreiðagjöld og önnur slík gjöld sem lögð eru á þar sem fyrirséð er að kostnaður eða skaði muni hljótast af og lenda á þriðja aðila. Menn vita að mikil neysla sykurs leiðir til offitu. Menn vita að mikil neysla sykurs er að verða eitt helsta vandamál innan heilbrigðiskerfisins þar sem mjög marga lífsstílstengda sjúkdóma má rekja beint til sykurneyslu. Þar fellur til kostnaður og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að þeir sem neyta mikils sykurs greiði fyrir það. Það er ekkert óeðlilegt við það, ekki frekar en það að menn greiða bifreiðagjöld eða mengunarskatt. Ég skil ekki meinlokuna sem virðist vera á sveimi í þessum sal. Og þetta er fyrir utan einhverja hugsun um hvort þarna sé um að ræða forvarnaatriði eða ekki.

Við 2. umr. var í þessum sal talað um verðteygni sykursins. Það er alveg rétt að þeir fullorðnu eru kannski ekki eins viðkvæmir og þeir sem yngri eru fyrir verðbreytingum á sykri en það hefur þó jákvæð áhrif gagnvart þeim sem yngri eru ef verðið er hærra vegna þess að þá er líklegra að yngri kynslóðirnar velji sig frá sykruðum vörum og yfir til annarra vara. En þessi ríkisstjórn er búin að ákveða að hækka verð á grænmeti og ávöxtum en lækka það á sykri. Mér er fyrirmunað að skilja lógíkina á bak við það. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan er kreddan að bera menn hér algjöru ofurliði. Ég held að menn séu hér að taka ranga ákvörðun sem er byggð á mjög röngum forsendum. Þetta snýst ekki bara um einhverja neyslustýringu. Hvað eru menn þá að gera þegar þeir taka ákvörðun um að leggja á bifreiðagjöld og mengunargjöld? Hvað eru menn að gera í því? Þetta er algjörlega sambærilegt.

Þessu fylgir fleira en eingöngu maturinn vegna þess að það hefur verið komið inn á það að þessi hækkun á virðisaukaskatti muni líka hafa mikil áhrif á suma atvinnuvegi hér á landi. Menn eru algjörlega með opin augun að taka ákvörðun um að bækur skuli vera með einhverjar mestu skattálögur sem fyrirfinnast í allri Evrópu. Eftir þessa breytingu erum við líklega í 4. eða 5. sæti yfir mestu skattpíningu á bóksölu í Evrópu, (Gripið fram í: Bókaþjóðin.) bókaþjóðin sjálf, við sem þurfum að gæta tungumáls okkar þar sem við flokkumst undir það að vera örþjóð hvað það varðar. Mér er þetta algjörlega óskiljanlegt. Þetta gera menn með algjörlega opin augu og halda því síðan fram að þeir séu ekki hrifnir af sköttum, það séu vondu vinstri mennirnir sem vilji skatta allt í drep. Hvað er þetta annað en að ætla að skatta þennan geira í drep? Ekki neitt. Hér er verið að skatta í drep bókaútgáfu og bóksölu í landinu. Þegar menn ýttu á já-hnappinn með þessari breytingu vissu þeir að þeir hefðu mikil og alvarleg áhrif á þennan markað, þ.e. bókamarkaðinn á Íslandi. Engu að síður var þetta gert. Ég átti orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um einmitt þetta þegar mælt var fyrir fjárlagafrumvarpinu fyrr í haust og honum leist ekki betur á þetta en svo að hann gerði sér grein fyrir afleiðingunum af því að hækka virðisaukaskattinn á bækurnar með þessum hætti og fullyrti í þessum stóli að þetta væri ekki hægt að gera nema koma með einhvers konar mótvægisaðgerðir. Hvar eru þær? Þær komu aldrei fram. Það eina sem gerðist er að eftir þessa yfirlýsingu menntamálaráðherrans hvarf hann út úr umræðunni. Það hefur ekki heyrst í honum síðan. Menn ákváðu að keyra þetta í gegn og hvergi komu mótvægisaðgerðirnar þrátt fyrir að fagráðherrann hefði fullyrt í þessum stól að þetta væri ekki hægt að gera nema koma með einhvers konar mótvægisaðgerðir. Þetta finnst mér þess vegna með ólíkindum. Það er vitað að bækur á Íslandi eru frekar dýrar. Það er kostnaðarsamt að framleiða þær og gefa þær út og það er dýrt að kaupa þær. Þetta höfum við vitað. Þær eru þess vegna mjög viðkvæmar fyrir verðbreytingum og ég tel að áhyggjur bókageirans hér á landi, útgáfugeirans, séu með öllu réttmætar enda sést með hvaða hætti nágrannaþjóðir okkar skatta bókaútgáfu. Við erum komin þar í hæsta flokk, þ.e. með þeim ríkjum sem skatta bækur hvað mest.

Allt tal um að þessi ríkisstjórn sé einhvers konar vinur atvinnulífs eða á móti skattlagningu er bara orðin tóm. Þessi ríkisstjórn er vinur sumra, þ.e. hún gætir að ákveðnum öngum atvinnulífsins en hún er til í að skatta aðra í drep eins og verið er að gera hér með hinar skapandi greinar. Þetta á ekki eingöngu við um bækur. Eins og fram hefur komið er hér líka um að ræða tónlistina og aðra menningu, kvikmyndahús og fleira sem þetta mun hafa gríðarleg áhrif á.

Þá get ég heldur ekki látið hjá líða að nefna ferðaþjónustuna og áhrifin sem þetta mun hafa á hana. Þegar fyrrverandi ríkisstjórn tók ákvörðun um að hækka virðisaukaskattinn á gistingu innan ferðaþjónustunnar úr 7% í 14% ákváðu menn að gefa ferðaþjónustunni níu mánuði til að aðlagast áður en breytingin tæki gildi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að menn eru búnir að gefa út verð langt fram í tímann. Þá héldu þeir sem nú leggja til að með engum fyrirvara fái ferðaþjónustan á sig hækkun úr 7% í 11% langar ræður um það hvílíkan óleik væri verið að gera þessari atvinnugrein. Það er ekkert að marka hvað menn segja í þessum stól, greinilega ekki neitt. Enn og aftur kemur í ljós að það skiptir engu máli hvað talsmenn þessarar ríkisstjórnar segja vegna þess að þeir gera alltaf eitthvað annað. Núna er allt í lagi að henda inn með engum fyrirvara hækkun á virðisaukaskatti á gistinguna, nokkuð sem okkur datt aldrei í hug að gera vegna þess að við vissum hvaða áhrif þetta hefur.

Virðulegi forseti. Að lokum verð ég að ítreka að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það að menn geri ekki meira en bara að laga fyrirsögn frumvarpsins fyrir 3. umr. Það er svo margt sem mætti gera breytingar á og þyrfti að laga. Til að draga þetta saman geta menn einfaldlega ekki horft á svona mál eitt og sér, menn verða að horfa á það í samhengi. Í stóra samhenginu er verið að færa skattbyrðar af stórum fyrirtækjum sem standa vel yfir á lítil fyrirtæki í skapandi greinum og ferðaþjónustu, það er verið að færa skattbyrði af þeim sem eru eignamestir í landinu yfir á þá sem eru tekjulægstir. Það er stóra myndin í þessu máli og það er ekki hægt að hlaupa undan því. Þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar og hún birtist okkur hér í máli eftir mál. Síðan munum við ræða það í málinu á eftir með hvaða hætti verið er að leggja aukinn kostnað á sjúklinga í landinu með því að auka þátttöku þeirra í kostnaði á nauðsynlegum sjúkrahúslyfjum og fleira slíkt þar sem líka er verið að brjóta samninga sem gerðir hafa verið við aðila á vinnumarkaði. Þrátt fyrir mótmæli BSRB, ASÍ og stórra aðila á vinnumarkaði hafa menn ákveðið að keyra í gegn þessa virðisaukaskattsbreytingu. Samt vita þeir að þetta mun hafa mjög neikvæð áhrif á þá sem lægstar hafa tekjurnar sem og að það er gríðarlegur ófriður á vinnumarkaði fyrir. Þetta mun ekki reynast mönnum létt þegar kemur til kjarasamningagerðar á næsta ári. Mótmælin frá þessum aðilum hafa verið það hávær. Viðbrögð þeirra eftir að þessi breyting var samþykkt eftir 2. umr. gefa líka til kynna að þetta muni enn þyngja róðurinn við gerð kjarasamninga á næsta ári. Þess vegna er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna menn halda þessu til streitu. Tekjurnar hefði verið hægt að sækja öðruvísi, t.d. með því að halda veiðileyfagjöldunum eins og þau voru, halda sykurskattinum og framlengja auðlegðarskattinn.