144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í almenna fjárlagaumræðu við hv. þm. Jón Þór Ólafsson en ég kem fyrst og fremst upp vegna breytingartillagnanna sem hann gerði grein fyrir í upphafi ræðu sinnar. Ég verð að segja að hér snertir hann á tveimur viðfangsefnum sem ég held að við þurfum að skoða hvort með sínum hætti. Annars vegar er um að ræða holu eða galla varðandi virðisaukaskattinn sem lýtur að laxveiðileyfunum sem ég er sammála honum um að þurfi með einhverjum hætti að koma undir virðisaukaskattskerfið. Ég held að það hljóti að verða gert og miðað við þær umræður sem átt hafa sér stað um það efni held ég að það verði gert varðandi frekari skoðun á virðisaukaskattskerfinu þó að það verði ekki gert í þessari atrennu.

Það hefur legið fyrir af hálfu stjórnarmeirihlutans að þrátt fyrir að verið sé að stíga töluvert skref í endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu í því frumvarpi sem hér er til umræðu er ekki um að ræða endanlega útgáfu. Menn sjá fyrir sér að þessi mál verði áfram til skoðunar með það að markmiði að fækka undanþágunum enn frekar og einfalda kerfið. Þar held ég að blasi við að það dæmi sem hann nefnir hér hljóti að verða meðal þeirra mála sem verði skoðuð.

Hitt atriðið sem hann nefnir er í sjálfu sér annað mál sem lýtur að tollum á matvæli og matvælainnflutning. Ég er sammála þeirri nálgun hv. þingmanns að þar sé um að ræða afar vonda aðferð bæði til tekjuöflunar og við að stýra búvöruframleiðslunni í landinu og styrkja hana. Ég held að jafnvel þó að ég virði það að hv. þingmaður hefur sjálfsagt gert allt sem í hans valdi stóð til að komast til botns í því máli í þessari atrennu og það hafi ekki verið unnt að kalla fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru í því sambandi sé afar mikilvægt verkefni (Forseti hringir.) fram undan á því sviði. Ég held að það markmið sem hann er að skoða í ræðu sinni sé afar mikilvægt.