144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka þessa umræðu. En hann er ótrúlegur hringlandahátturinn í stjórnarflokkunum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, þegar kemur að skattkerfinu og stefnumörkun og sjónarmiðum í þeim málefnum. Ég hygg að þær breytingar sem verið er að gera á skattkerfinu á þessu kjörtímabili séu nú að nálgast 100 og sennilega að æra óstöðugan að reyna að ná yfirliti yfir það. Sannarlega voru miklar breytingar gerðar í kjölfar hrunsins en nauðsyn brýtur lög. Það er hins vegar orðið umhugsunarefni hversu víða og mikið verið er að gera breytingar á skattkerfinu og líka hvaða stefnumörkun liggur því til grundvallar. Það eru aðeins örfá ár frá því þessir sömu stjórnarflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, fóru í langan og mikinn leiðangur til þess einmitt að lækka skattprósentuna í matarskattinum úr 14% í 7%, það hefur trúlega verið í upphafi árs árið 2007, fyrir litlum 7 árum. Nú eru þessir sömu flokkar komnir hingað aftur og gera hið þveröfuga án þess að gera með neinum hætti viðhlítandi grein fyrir því hvað veldur sinnaskiptunum í málinu annað en bara það að það vantar pening í ríkiskassann sem virðist vera megintilgangur málsins, að bæta upp fyrir tap á skatttekjum sem ríkissjóður hafði af 5.000 efnuðustu heimilunum í landinu í gegnum auðlegðarskattinn annars vegar og af veiðigjaldinu á stórútgerðina hins vegar.

Hringlandahátturinn er ekki bara hér á milli ára þar sem sömu flokkarnir tala fyrir því að mikil og sterk rök séu fyrir því að lækka prósentuna eitt árið og koma svo annað árið og færa mikil og sterk rök fyrir því að það þurfi að hækka hana heldur er hringlandahátturinn líka innan þinga, meira að segja bara á milli stjórnarfrumvarpa. Þannig gerði fjárlagafrumvarpið ráð fyrir því að verið væri að hækka úr 7% í 11% meðan gert var ráð fyrir því í frumvarpinu sjálfu að hækkað yrði í 12%. Sennilega fádæmi ef ekki einsdæmi að slíkur hringlandaháttur sé með frumvarp nr. eitt, fjárlagafrumvarpið, sem þarf að vera hornsteinninn og kjölfestan í rekstri ríkissjóðs Íslands, að tölurnar, grundvallartölur í frumvarpinu, séu rangar eins og prósenta í virðisaukaskatti á matvæli og menningu við framlagningu þingmálsins í upphafi þings. Við erum að tala, virðulegi forseti, um frumvarp nr. 1, þingmál nr. 1, fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það verður eiginlega að gera þá lágmarkskröfu að það séu réttar upplýsingar í því í meginatriðum við framlagninguna. En þessi hringlandaháttur virðist kannski hafa verið hafður á með 11% og 12% fyrst og fremst til að hægt væri af hálfu Sjálfstæðisflokksins að leika hér eitthvert leikrit með þingmenn Framsóknarflokksins þannig að þeir gætu farið hver á fætur öðrum fram í fjölmiðla og haft mikla fyrirvara um þessa 5% hækkun upp í 12%. Svo gæti Sjálfstæðisflokkurinn af örlæti sínu rétt framsóknarmönnunum 1% af þessum 5% og lækkað niður í 11% þannig að hækkunin væri bara 4%. Þá hefðu náðst sögulegar sættir en 11%-talan var alltaf talan í fjárlagafrumvarpinu, alltaf talan sem gengið var út frá í þessum áætlunum öllum af hálfu Sjálfstæðisflokksins, enda fylgdumst við með því í síðustu viku að það var þó einn þingmaður — af fyrirvaraþingmönnum Framsóknarflokksins, sem kallaðir eru, þeim sem lýstu opinberlega andstöðu eða efasemdum við breytingar á matarskattinum en ýttu síðan á græna takkann þegar til stykkisins kom í síðustu viku — sem treysti sér ekki til að taka þátt í því. Það varð býsna augljóst í þeirri atkvæðagreiðslu hvernig þessu máli er fyrir komið á milli stjórnarflokkanna. Það gekk enginn þess dulinn hér í þingsalnum að það var býsna erfitt fyrir margan framsóknarmanninn að ýta á takkann og greiða þessum breytingum atkvæði sitt. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru hér í hliðarherbergjunum með hlátrasköllum kampakátir því að þeir höfðu náttúrlega í þessum leiðangri fengið allar sínar áherslur fram.

Þó að þessi atkvæðagreiðsla hafi farið fram hér við 2. umr. þá er auðvitað full ástæða til þess, áður en málið er endanlega lögfest hér við 3. umr., að hvetja stjórnarflokkana til að endurskoða þessi áform af því að þetta eru vond áform. Þau fela ekki í sér neina einföldun á einu eða neinu. Áfram eru skattþrepin tvö, áfram eru alls kyns undanþágur. Þær eru að vísu aðeins öðruvísi en undanþágurnar sem voru áður en þetta tekur gildi en þær eru alveg jafn flóknar þannig að enga einföldun er í þetta að sækja. Hér er einfaldlega um að ræða skattahækkun um hátt í 10 milljarða á heimilin í landinu og það á alversta tíma. Á tímum þegar það er einfaldlega þannig að fjölmörg heimili, ég held að okkur sé óhætt að segja tugþúsundir heimila, mega illa við auknum álögum eins og hér eru á ferðinni. Ég hygg að það sé um annað hvert heimili í landinu sem telur sig eiga erfitt með að ná endum saman eða getur það hreinlega ekki og þetta mun ekki hjálpa fólki í daglegri glímu við að láta enda ná saman í rekstri síns heimilis. Hátt í 10 milljarðar í skattahækkun er hátt í 100 þús. kr. á hvert heimili í landinu og auðvitað er þetta sérstaklega þungt fyrir þá sem eru með marga í heimili og hafa hlutfallslega hærri útgjöld til matar en ýmsir aðrir hópar.

Það er óskandi að stjórnarflokkarnir sjái að sér í þessu og líka vegna þess hvernig að þessum breytingum er staðið, það er gert með allt of skömmum fyrirvara. Við sjáum til dæmis ýmsar greinar eins og ferðaþjónustuna taka skattbreytingum með örskömmum fyrirvara. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa sjálfir í þessum ræðustól haldið langar og lærðar ræður um það hversu mikið óhæfuverk það sé að breyta í grundvallaratriðum skattlagningu á heilli atvinnugrein með litlum sem engum fyrirvara. En þó eru þeir að gera það hér löngu eftir að búið er að gefa út verðskrár fyrir komandi tímabil. Það sem verra er, og undirstrikar enn hringlandaháttinn í bæði stefnumörkun stjórnarflokkanna í þessum mikilvægu málum og allan umbúnað þessara mála, er að hér lýsti fjármálaráðherra því yfir svo seint sem í lok síðustu viku að áformin sem lesa má í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, um að það ætti ekki bara að hækka úr 7% í 11% heldur eigi á næsta ári að hækka matarskattinn úr 11% í 14% — eftir að við höfðum knúið á um það hér í ræðu eftir ræðu eftir ræðu, bæði við fjárlagaumræðuna og í umræðum um þetta mál, þá loks draujaðist hæstv. fjármálaráðherra til að koma hingað upp í ræðustólinn og viðurkenna að hann væri fallinn frá þeim áformum, að það sem stendur um þetta í fjárlagafrumvarpinu, sem var lagt fram hér í september, það er bara ekkert að marka það af því að fjármálaráðherra markaði stefnu um að hækka virðisaukaskatt úr 11% í 14% á árinu 2016 en það bjó ekki meiri vinna eða sterkari grundvöllur undir þeim fyrirætlunum en svo að þær voru blásnar af áður en fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 hafði verið afgreitt. Níutíu til hundrað dögum frá því að frumvarpið er lagt fram eru borin fram þau stórtíðindi í stefnumörkun í neyslusköttum í landinu að ríkisstjórnin ætli að hækka úr 11% í 14% árið 2016 og síðan er bara fallið frá þeim. En það er fagnaðarefni, og við hljótum að líta á það sem sigur í stjórnarandstöðunni, að ríkisstjórnin skuli hafa fallið frá seinni áfanga hækkunarinnar. Það er eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, mundi segja: Skárra en ekkert. Auðvitað gerir það málið ekki gott að hækka úr 7% í 11% en það er fagnaðarefni að fjármálaráðherra hafi lagt á flótta með seinni hluta hækkunarinnar því að þessi er auðvitað þungbær, hækkunin úr 7% í 11%, en hækkunin áfram í 14%, sem ríkisstjórnin boðaði í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, hefði síðan verið enn verri þegar hún hefði komið í kjölfarið á þessu.

Við höfum margsinnis farið í gegnum það, og þurfum kannski ekki að gera það mjög ítarlega við 3. umr., að ein af ástæðum þess að þetta er svo óheppilegt á þessum erfiðu tímum í fjármálum heimilanna er það sem kallaðar hafa verið mótvægisaðgerðir og er nú almennt aðhlátursefni í samfélaginu hjá ríkisstjórninni, niðurfelling á ýmsum óskyldum vörum við matvöru og lítils háttar lækkun á efra þrepinu. Rannsóknir sýna okkur býsna glögglega að reynslan er sú að hækkanirnar skila sér tafarlaust og að fullu en lækkanirnar skila sér oft seint og alltaf bara að hluta og stundum og raunar oft skila þær sér alls ekki neitt vegna þess að það er eitthvað annað sem ræður verðlagningu þeirrar vöru en kostnaðarverð vörunnar sjálft. Þess vegna eru þessar breytingar auðvitað líka svo sérstaklega bagalegar á þessum tímapunkti í rekstri heimilanna í landinu sem hafa búið við þröngan hag nú í 6 ár samfleytt en sem hefur sem betur fer hægt og rólega farið batnandi ár frá ári. Núna loksins eru menn í stöðu til þess að þurfa ekki að leggja nýjar álögur á heimilin, þurfa ekki að fara með skattinn úr 7% í 11%, hagvöxturinn sem hefur verið á undanförnum árum hefur skilað okkur þeim árangri að ríkissjóður er kominn í plús og menn þurfa ekki að ákveða að hækka skatta eða gjöld á heimilin til að bjarga hallarekstri ríkissjóðs. Auðvitað geta menn valið. Þá velja þeir að leggja af auðlegðarskattinn á 5.000 ríkustu heimilin, lækka veiðigöldin á útgerðina sem græðir sem aldrei fyrr. Til að fjármagna þessar lækkanir þá leggja þeir þennan sérstaka matarskatt, 4% hækkun, hátt í 10 milljarða kr., á heimilin í landinu.

Það er auðvitað þannig að það má ýmislegt bæta í þessu virðisaukaskattskerfi og það mætti sannarlega ráðast í margháttaða einföldun í því. Ég held til dæmis að tillaga sú sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson fer fyrir um að fella laxveiðina undir þetta fyrirkomulag, og meðflutningsmenn eru á úr öllum stjórnarflokkunum, væru sannarlega til bóta og muni skila ríkissjóði mikilvægum tekjum. Auðvitað væri hægt að fara í einhverjar skattbreytingar á matvörum með raunverulegum mótvægisaðgerðum. Þær mótvægisaðgerðir þyrftu þá auðvitað að lúta að sama vöruflokki, þ.e. að matvörum. Þannig má benda á að þær lækkanir sem líklegastar eru til að skila sér til neytenda eru lækkanir í matvörum, afar ósennilegt að lækkanir í byggingarvöru, raftækjum eða heimilistækjum skili sér að neinu leyti eða að minnsta kosti þá bara að hluta til neytenda og það með nokkrum töfum eins og rannsóknir til að mynda Rannsóknaseturs verslunarinnar hafa leitt í ljós. Það má þó segja um matvörumarkaðinn að þar benda rannsóknir á gengisbreytingum til þess að ef gengið verður hagstæðara fyrir neytandann, þ.e. lækkar verð á innfluttri vöru, þá skilar slík breyting á genginu sér í lægra matarverði tiltölulega fljótt, ekki tafarlaust en tiltölulega fljótt, og skilar sér að 3/4 hlutum. Ef menn vildu gera breytingar í skattkerfinu til að hækka eitthvað þessa prósentu og þætti hún vera of lág og vildu grípa til mótvægisaðgerða gegn slíkri hækkun þá væri augljósast að ráðast í breytingar á tollum á matvöru eins og nefndur hv. þm. Jón Þór Ólafsson hefur lagt til. Það er að vísu býsna bratt að ætla að gera það með einni breytingartillögu við 3. umr. án þess að fram hafi farið um það neinir samningar bæði við önnur ríki og bændur og aðra sem að því þyrftu að koma. En í prinsippinu er það rétt að ef menn vildu fara í mótvægisaðgerðir við hækkun á matarskatti væri skynsamlegast að fara í lækkun á tollum eða niðurfellingu tolla á matvöru því að það gæti skilað árangri sem mótvægisaðgerð.