144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[20:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið komið inn á ýmsa hluti og ekki vanþörf á að ræða mál sem valda breytingu eins og þeirri sem er að verða á samfélagi okkar með öllum þeim gjörðum sem verið er að leggja til bæði í þessu máli og í því máli sem við töluðum um hér á undan. Það er mjög margt einkennilegt í afgreiðslu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það vera svolítið gegnumgangandi að það eigi að athuga eitthvað, það eigi að móta eitthvað og þannig. Síðan er farið í framkvæmdir sem gjörbreyta því sem nú er án þess að fyrir liggi hvernig eigi að gera hlutina.

Af því að ég var nú á fjárlaganefndarfundi síðdegis, þá vorum við að ræða framtíð Bankasýslunnar. Satt að segja var sá fundur svolítið sérkennilegur. Það var nánast eins og maður upplifði að verið væri að segja viðkomandi upp í beinni. Forstjóri hefur sagt að hann hafi ekki frétt af þessum fyrirætlunum fyrr en hann sá í frumvarpinu að Bankasýsla ríkisins fær ekkert fjármagn á næsta ári. Hún er samt með 3,3 starfsmenn, hún er með forstjóra sem er embættismaður ríkisins og er þar af leiðandi með að minnsta kosti 6 mánaða biðlaun og með aðra starfsmenn sem eru með hefðbundinn þriggja mánaða uppsagnarfrest eða eitthvað slíkt. Það er svolítið sérstakt að enginn liður í fjárlagafrumvarpinu heitir Bankasýsla ríkisins og þar af leiðandi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvernig hún eigi að reka sig.

Það hafa verið millifærðar tæplega 50 milljónir af Bankasýslunni inn í fjármálaráðuneytið og svörin hafa verið á tvo vegu, annars vegar að það eigi að ráða inn fólk til að sinna verkefnum, en svo var látið að því liggja að hægt væri að mæta þessum kostnaði sem fælist í því að stofnunin yrði lögð niður um áramótin með þessum fjármunum.

Ég segi nú bara, virðulegur forseti: Mér finnst þetta döpur framkoma. Ekki er komið fram frumvarp, af því að það hefur að mér skilst ekki náðst samkomulag um það í ríkisstjórninni, um það hvað eigi að taka við, hvernig þetta eigi að vera, framtíð þessara mála, en samt á að leggja þetta niður „af því bara“. Það voru sett lög um Bankasýsluna og talað um að á fimm ára tímabili væri gert ráð fyrir því að tilteknum markmiðum hefði verið náð, þ.e. að selja meginhluta eignanna, en stofnunin leggst ekkert sjálfkrafa niður nema lagabreyting komi til. Og ráðuneytið sagði vissulega að það væri snyrtilegast og best að leggja fram ný lög, en það hefur ekki verið gert. Hér á samt sem áður að leggja stofnunina niður og talað er um að verkefnin fari inn í fjármálaráðuneytið.

Svörin eru þau að hægt sé að tryggja armslengd með fleiri en einum hætti, en samt er ekki hægt að segja neitt, af því að ekki má upplýsa okkur um — það er ekki þeirra hlutverk í fjármálaráðuneytinu að upplýsa það — hvað felst í frumvarpinu. Þetta eru afar undarleg vinnubrögð vægast sagt. Við erum að taka menntakerfið okkar í gegnum fjárlögin, við erum að taka Bankasýsluna, við erum að taka marga hluti í gegnum fjárlögin án þess að eiginleg stefnumótun hafi átt sér stað eða að það liggi fyrir hvað tekur við. Að minnsta kosti höfum við þingmenn ekki fengið að fjalla um það, það er alveg ljóst. Og það er það sem á að gerast, hvað sem okkur finnst um tilteknar stofnanir eða eitthvað slíkt að þá á það auðvitað að vera svo.

Þetta með þessa armslengd frá þessu pólitíska valdi, sem var jú eitt af því sem var rætt eftir hrun að væri mjög æskilegt — við vitum ekkert hvort eða hvernig það verður tryggt og það er bara hreint ekki hægt að sætta sig við að svona sé komið fram við það fólk sem þarna vinnur. Ég held að við mundum ekki vilja láta koma svona fram við okkur sjálf. Og það er ágreiningur um það milli ráðuneytis og Bankasýslunnar hvort það séu sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum. Mér finnst það svolítið undarlegt að ekki séu allir með sama skilning á því, að það hafi ekki legið fyrir, þannig að mér finnst þetta vera eitt af þessum fljótræðisverkum, það er einhvern veginn eins og það þurfi bara að klára eitthvað sem var gert í tíð fyrri ríkisstjórnar og út með það. Þetta lítur svolítið þannig út.

Virðulegi forseti. Ég hef líka verið að velta fyrir mér þessum nýju hagtölum eins og fleiri þingmenn. Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu þó að ég sé ekki að ætla að allt þurfi endilega að fara á hliðina, en þessi síðasti ársfjórðungur — þetta er mikill munur. Það er mikill munur á þessari spá sem gerð hefur verið og því sem við höfum verið að gera ráð fyrir í fjárlögunum. Ég velti fyrir mér svörunum sem við fengum, að það væri mikil aukning í innflutningi sem gæti átt eftir að skila sér í einkaneyslu eða kaupum um jólin. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist að jólin byrja fyrr, þ.e. jólaverslunin. Ég held að ekki sé einsdæmi að hún byrji í október eða nóvember eða að kaupmenn séu að kaupa fyrr, þannig að mér finnst það ekki geta skýrt þetta.

Hins vegar var rætt um auðsáhrif af skuldalækkun og ekki er ósennilegt að það spili þarna inn í, að fólk sé farið að fjárfesta fyrir fram vegna þess að það telji sig eiga borð fyrir báru, (Gripið fram í.) sem á svo kannski eftir að koma í bakið á þeim. Að jólasalan hefjist fyrr en ella, ég held að það sé ekki rétt. Ég held að hún hafi hafist á svipuðum tíma og svo oft áður.

Virðulegi forseti. Ég tel að við eigum að hafa allan varann á. Nú þegar búið er að veita undanþágu vegna gjaldeyrismála hefur komið í ljós að arðgreiðslan minnkar um um það bil 1,5 milljarða, sem skilar sér þá væntanlega í lægri greiðslum í ríkissjóð. Ég held því að við þurfum að vera á varðbergi, að þetta verði kannski ekki alveg jafn gott og væntingar eru um í fjárlagafrumvarpinu. Við þurfum að skoða þetta. Er einkaneyslan að dragast saman og þá hjá hvaða hópum? Eða er hún að aukast og hvaða hópar eru það þá? Hverjir eru það sem koma til með að eyða meira? Ég vona að gerðar verði einhverjar kannanir á því þegar fram líða stundir. Við höfum efast um að þessar breytingar skili sér 100% og við þurfum að rannsaka hvaða áhrif minni tekjur hafa, hvort skattalækkanirnar sem hér er um að ræða hafi eitthvað um það að segja og skattahækkanirnar o.s.frv. Okkur hefði þótt ástæða til að skoða þetta frumvarp upp á nýtt og gera einhverjar varúðarráðstafanir.

Mig langar aðeins til að nefna sveitarfélögin. Það hefur aðeins verið rætt hvaða áhrif þessar tillögur hafa á sveitarfélögin. Þar er kannski stóra málið styttingin á atvinnuleysisbótatímabilinu um hálft ár, það er 17% skerðing, miðað við almennan bótarétt, sem í því felst. Það má líka rifja það upp að það er ekki fyrr en um þarsíðustu áramót sem ákvæðið um 48 mánaða bótarétt var ekki framlengt, þannig að um er að ræða um það bil 30% skerðingu á lengd bótaréttar á þessu tveggja ára tímabili ef við lögfestum þetta hér, sem mér sýnist að raunin verði. Eins og við vitum færir þetta ábyrgðina yfir á sveitarfélagið, sveitarfélögin sitja að einhverju leyti uppi með félagslega fjárhagsaðstoð við þá sem búið hafa við langvarandi atvinnuleysi. Það er kannski það sem hefur verið gagnrýnt af hálfu sveitarfélaganna að við þau var ekki haft samráð. Ég þreytist aldrei á að lesa upp úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að vinna eigi í víðtækri sátt við alla aðila o.s.frv. Ég held að ríkisstjórnin sé ekki að virkja samtakamátt þjóðarinnar með því sem hún er að gera núna og vísa þá í ástandið á Landspítalanum, bótaskerðingu, virðisaukaskattshækkanir o.s.frv.

Atvinnuleysisbótatímabilið — greiðslurnar sem sjóðurinn fær lækka úr 1.145 millj. kr í 1.130 millj. kr. Sveitarfélögin reikna með því að þetta sé í kringum 500 millj. kr. hækkun sem lendir beinlínis á þeim. Samband íslenskra sveitarfélaga bendir líka á — af því að verið er að skerða framlög til Vinnumálastofnunar og hún hefur til dæmis lokað á Húsavík og ætlar sér ekki að opna þar aftur — að nær hefði verið að bæta þar í því að sveitarfélögin og Vinnumálastofnun hafa verið að reyna að sporna gegn langtímaatvinnuleysi með góðu samstarfi, þannig að þetta er ekki til þess fallið að vinna gegn því. Þeim góða árangri sem verið hefur af samstarfsverkefnum undanfarin ár er stefnt í hættu með því framferði sem hér er látið viðgangast.

Gert er ráð fyrir því að rúmlega 600 einstaklingar detti út af atvinnuleysisbótarétti strax um næstu áramót miðað við 30 mánaða regluna. Ef við gerum ráð fyrir því að um 45% þeirra fái fjárhagsaðstoð þá kostar það sveitarfélögin um það bil 445 milljónir. Ef við drögum frá þá sem hefðu að öllu óbreyttu lent þar inni þá eru það um það bil 220 milljónir. Vissulega fá sveitarfélögin úr lækkuninni á tryggingagjaldinu eins og aðrir um 90–100 milljónir þar upp á móti öllum þeim kostnaði sem á þau er velt í þessu frumvarpi, en það breytir því ekki að ekkert samráð er haft við sveitarfélögin um þetta.

Í framhaldinu er gert ráð fyrir að 85 einstaklingar falli út af atvinnuleysisbótaskrá í hverjum einasta mánuði. Ef við gerum ráð fyrir þessari 30 mánaða reglu þá sitja sveitarfélögin upp með um það bil 300 milljónir. Að sjálfsögðu gagnrýnir Samband íslenskra sveitarfélaga það að ekki hafi farið fram kostnaðarmat á þessu frumvarpi því að samkvæmt 129. gr. sveitarstjórnarlaga er það áskilið og ríkið er gagnrýnt fyrir það að stuðla ekki að þróun góðra samskipta á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég skil eiginlega ekki af hverju það er ekki gert.

Virðulegi forseti. Það er mjög margt sem ég er svekkt yfir í þessu máli. Ég er svekkt yfir því að Sjúkrahúsið á Akureyri fái ekki þá litlu fjármuni sem það þarf til að bæta reksturinn og vera innan fjárheimilda, að Háskólinn á Akureyri skuli ekki fá leiðréttingu í lögskýringartexta á viðbótarfjármagni, hann varð fyrir ósanngjarnri úthlutun, svo að ég nefni það sem stendur mér næst. Dreifnámsskólinn á Patreksfirði fær ekki fjármagn þrátt fyrir að nemendum hafi fjölgað; þar voru nokkrir nemendur en eru nú tæplega 40. Þar langar fatlaðan nemanda til að mæta í skóla, en að óbreyttu er það ekki hægt vegna þess að það eru engir fjármunir.

Virðulegi forseti. Þetta getur ekki verið til þess að sætta þjóðina og mynda gott samstarf milli ríkis og samfélags. Við getum öll verið sammála um að jafnrétti allra landsmanna er ekki haft að leiðarljósi eins og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og ekki er verið að vinna að öðru en sundurlyndi með því að framkvæma gerræðislegar ákvarðanir sem hafa verið teknar hér á síðustu dögum og vikum.

Svo að ég minnist nú á það hér í framhjáhlaupi svona rétt í restina þegar þingmenn stjórnarmeirihlutans samþykktu gegn orðum síns eigin forsætisráðherra tilflutning á fjármagni frá lögreglunni (Forseti hringir.) á Austurlandi yfir á Suðurland.