144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum stödd í 3. umr. um 3. mál, Ýmsar forsendur fjárlaga. Ég tel í upphafi nauðsynlegt að segja hreint út að ég tel þetta ekki gott frumvarp, eins og annað sem lýtur að fjárlögum og því sem því viðkemur. Fyrir þetta ár boðar þetta frumvarp veikingu á velferðarsamfélaginu okkar og í því er á fjölmörgum stöðum verið að klípa af framlagi ríkisins til velferðarkerfisins en í staðinn verið að velta kostnaði í auknum mæli yfir á atvinnulífið, lífeyrissjóði og síðast en ekki síst einstaklinga.

Ég verð eiginlega að gera þá játningu að það er svolítið undarlegt að fylgjast með því hvernig umræðunni vindur fram hér á milli umræðna eða vindur í rauninni óskaplega lítið fram þar sem frumvarpið stendur í öllum meginatriðum þó svo að það hafi verið gerðar smábreytingar sem draga kannski úr sumum af göllum þess. Eins og hefur komið fram í umræðunni í kvöld eru það helst þættir sem lúta að jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða þar sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til að fallið verði frá tillögum frumvarpsins um að hlutdeild lífeyrissjóða í tekjum, almennu lífeyrissjóðanna, verði 0,35% og hún verði lækkuð árlega um 20% næstu fimm ár uns hún fellur brott. Þarna sem sagt er verið að leggja til mildari aðgerð í staðinn fyrir að þetta komi inn af fullum þunga núna, og svo hins vegar er verið að leggja til að gildistími ákvæða í lögum um virðisaukaskatt verði framlengdur um eitt ár þegar kemur að vistvænum bílum, þ.e. til að viðhalda efnahagslegum hvata til kaupa á vetnis-, rafmagns- eða tengil- — já, ég get ekki einu sinni sagt þetta orð, sem sagt á umhverfisvænum bílum.

Auðvitað er þetta úr af fyrir sig gott en það breytir því ekki að það eru tvö stór mál sem út af standa óbreytt og mig langar að gera að helsta umræðuefni mínu hér í kvöld. Það er annars vegar sjúklingaskatturinn sem fólk með alvarlega sjúkdóma á að borga en það eru S-merktu lyfin, sérhæfðu sjúkrahúslyfin, sem þó eru ekki tekin inn inni á spítala heldur lyf sem fólk fær að taka með sér heim og taka inn þar. Þarna ætlar ríkissjóður að spara sér á annað hundrað milljónir með því að velta kostnaðinum yfir á sjúklinga. Þessa aðgerð tel ég vera mjög illa ígrundaða og alls óvíst hvaða áhrif þetta kemur í raun til með að hafa á ávísun lyfja og í rauninni lyfjanotkun. Þar með er þetta stórt mál inni í allsherjarhugsunina sem varðar velferðarkerfið okkar. Verður þetta mögulega til þess að fleiri S-merktum lyfjum verður ávísað til notkunar utan heilbrigðisstofnana, vegna þess að þá getur ríkið sparað sér peninga með því að láta fólk taka lyfin sín inn heima? Eða verður þetta til þess að farið verður að horfa í peninginn sem leggst á sjúklinginn og þá farið að velja að gefa lyf sem eru gefin inni á spítalanum og þá með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið, ekki aðeins í því að borga fyrir lyfið heldur alla umsýsluna sem þá á sér stað inni á spítalanum?

Því miður, eins og kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, hefur ekki farið fram nein almennileg greining á því hvernig þetta muni koma út fyrir ríkið. Mér finnst það stóralvarlegt mál, því að við erum að tala um mjög sérhæfð lyf sem eru gefin við alvarlegum sjúkdómum. Mér finnst algjört grundvallaratriði að það liggi fyrir góðar meðal annars læknisfræðilegar greiningar á því hvaða áhrif það hefur að vera að hræra í greiðsluþátttökukerfinu þar sem sumir sem eru jafnvel með sama sjúkdóminn en taka ólík lyf við ólíkum einkennum lenda í ólíkri greiðsluþátttöku. Þetta finnst mér stórt heilbrigðismál sem því miður hefur ekki verið rætt nógu mikið.

Svo vil ég taka undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur sem sagði fyrr í kvöld að hér sé farið í vitlausa átt, því að auðvitað ættum við að vera að vinna í því að minnka kostnaðarhlutdeild sjúklinga en ekki að koma henni yfir á breiðari hóp sjúklinga. Eins og margoft hefur verið talað um eru ýmis teikn um það, og flest teikn um það, að við séum að rétta úr kútnum eftir kreppuna, hagkerfið hefur verið að taka við sér, það er allt á uppleið og þá eigum við að forgangsraða peningunum í heilbrigðiskerfið og S-merktu lyfin eru þar hluti af. Ég tel þetta því alveg gríðarlega veikingu á kerfinu þar sem við erum að velta auknum byrðum yfir á fólk með alvarlega sjúkdóma akkúrat á þeim tíma þegar við gætum verið að fara í hina áttina.

Hitt málið sem ég vil gera að umræðuefni í kvöld, og mér finnst hreinlega ekki hægt að fara í umræðu um þetta 3. þingmál án þess að ræða það, er stytting á atvinnuleysisbótatímabilinu þar sem fyrirhugað er að stytta það úr þremur árum í tvö og hálft ár. Boðað er að sú breyting, ef lögin verða samþykkt, eigi að taka gildi strax um áramótin, þ.e. eftir tvær vikur. Hæstv. forseti, við erum að tala um það núna 15. desember að breyta lögum þannig að 1.000–1.300 manns detti út af atvinnuleysisskrá og missi þannig framfærslu sína, ekki safna þeir fyrir þessu. Það er mjög alvarlegt mál að þeir missi framfærslu sína eftir tvær vikur. Hluti þeirra mun kannski geta fengið einhverja framfærslu frá sveitarfélaginu sínu en alls ekki allur hópurinn. Þessi breyting á atvinnuleysisbótatímabilinu var gerð án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna en öflugt atvinnuleysistryggingakerfi hefur í raun verið ein af grundvallarstoðunum í velferðarkerfi okkar, eitthvað sem fólk hefur getað reitt sig á ef svo óheppilega fer að það af einhverjum ástæðum missir vinnuna, þá höfum við haft hér þó nokkuð sterkt atvinnuleysistryggingakerfi. Og hér stendur sem sagt til að veikja það og velta kostnaðinum við framfærslu langtímaatvinnulausra yfir á sveitarfélögin sem þó fengu ekkert að koma að borðinu, koma að þessum fyrirhuguðu breytingum.

Eiginlega til að bíta höfuðið af skömminni er þetta gert án nokkurra mótvægisaðgerða. Þau virkniúrræði sem fyrir eru, eins og t.d. VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, þau eru veikt sem og menntakerfið þar sem bóknámi í framhaldsskólum verður í raun lokað fyrir þá sem eru 25 ára eða eldri og þeim vísað í dýrari einkaskóla. Hér því verið að draga úr möguleikum fólks til virkni ef það er atvinnulaust. Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn leggur fram þetta frumvarp með tillögum um styttingu atvinnuleysistímans án allra virkniúrræða liggur hér fyrir tillaga til þingsályktunar, sem þó hefur ekki verið mælt fyrir, um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur.

Svo ég lesi aðeins upp úr greinargerð sem fylgir henni þá segir þar, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að búa atvinnuleitendum gott umhverfi þar sem þeir fá aðstoð við að finna sér nýja vinnu, fá atvinnutengda starfsendurhæfingu og virkniúrræði sem henta hverjum og einum.“

Svo er haldið áfram. Flutningsmenn á þessari tillögu eru engin smáromsa. Það eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Einar Daðason, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir. Valgerður Gunnarsdóttir, Frosti Sigurjónsson, Vilhjálmur Bjarnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson, Karl Garðarsson, Þórunn Egilsdóttir, Willum Þór Þórsson og Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Ég verð að segja að mér finnst liggja beinast við að benda þessum hv. þingmönnum á að þetta er fín tillaga hjá þeim. Auðvitað viljum við efla virkni fyrir atvinnuleitendur, en væri ekki nær að skrifa þær inn í fjárlagafrumvarpið og þá þetta 3. mál, sem er ýmsar forsendur fjárlaga, og fara í gegnum þetta þar í stað þess að draga þar úr virkniúrræðunum en flytja svo þingsályktunartillögu sem er fín en væri í raun óþörf ef við mundum halda þessu inni í ýmsum forsendum fjárlaga? Það er í að það minnsta mín skoðun að hér séum við svolítið að sækja vatnið yfir lækinn.

Hæstv. forseti. Ef tillögur hæstv. ríkisstjórnar ganga eftir er staðan sú að hér verður álögum létt af þeim efnameiri í samfélaginu sem geta til að mynda farið og keypt sér ný og flott raftæki án vörugjalda, en skattar verða hækkaðir á mat og auknar álögur lagðar á fólk með alvarlega sjúkdóma og yfir þúsund manns kastað af atvinnuleysisbótum með tveggja vikna fyrirvara. Því miður er þetta hæstv. ríkisstjórn sem ekki ætlar að framlengja auðlegðarskattinn og hún ætlar að draga úr veiðigjöldum og á sama tíma ætlar hún með tillögum sínum að veikja velferðarkerfið okkar. Það er eitthvað sem ég get ekki skrifað upp á og þess vegna tel ég bráðnauðsynlegt að okkur takist að koma fram einhverjum breytingum á þessu máli fyrir lok þessarar 3. umr. og gera það svolítið manneskjulegra.