144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að sú ákvörðun að endurreisa Landsbankann hefur reynst farsæl fyrir ríkið, bæði út frá sjónarmiðum um fjármálalegan stöðugleika í landinu og líka sem fjárfesting má segja að aðgerðin hafi heppnast mjög vel. Og það er allt rétt sem fram hefur komið, að arðgreiðslur hafa verið þó nokkrar en vaxtabyrðin hefur líka verið mjög mikil. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta kannski um það hvort þessi aðgerð hafi ekki bara heppnast og við séum komin á leiðarenda, þ.e. við erum búin að endurreisa bankann, hann er kominn í góðan rekstur og nú getum við aftur innleyst það sem lagt var fram og borgað niður skuldirnar og kannski gott betur. Þá er upphaflega tilgangnum náð.

Mér finnst aðalatriðið vera það að við erum enn með of mikla skuldsetningu á ríkissjóði og þarna er tækifæri til þess að létta á henni, losa um vaxtabyrði og mögulega innleysa einhvern hagnað til þess að fara í önnur mikilvæg verkefni.