144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir ræðuna sem í raun og veru fyllir mann ákveðnu vonleysi, þegar maður horfir yfir hverju við erum að fara að skila frá okkur sem þjóðþing til mjög margra í samfélaginu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvernig henni líði að fara heim með þetta í farteskinu og þá tilfinningu að vera búin að reyna að koma með tillögur að úrbótum fyrir bæði heilbrigðiskerfið og þá sem virkilega eiga fáa málsvara og geta ekki t.d. farið í verkfall, öryrkjar og gamalt fólk geta ekki farið í verkfall. Fyrir vikið er þrýstingurinn kannski ekki eins mikill varðandi þessa hópa.

Mér persónulega líður þannig að ég er með óbragð í munninum og mér líður mjög illa yfir því að hafa ekki getað fengið meiri hlutann til þess að hlusta og taka við einhverjum af þeim tillögum sem við í minni hlutanum höfum komið með. Mig langar að spyrja hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur hvernig henni líði með það sem við erum að fara að greiða atkvæði um mjög fljótlega.