144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[00:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og langar aðeins að fylgja eftir því sem mér finnst athyglisvert, en það eru áhyggjur af framtíðarsýninni, þ.e. hvert við erum að stefna. Á hvaða vegferð er hæstv. ríkisstjórn? Þá veltir maður líka fyrir sér þeim sérstöku fréttum sem við höfum fengið í vikunni og langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á því.

Í fyrsta lagi fengum við nýtt álit frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, á svokallaðri brauðmolahagfræði eða þeirri kenningu sem gengur út á það að maður eigi að skammta vel til þeirra sem hafa það betra í samfélaginu og þannig muni hrjóta molar af borðum þeirra og allir að njóta. Erum við ekki að upplifa þessa hugmyndafræði í fjárlögum og í allri framkvæmd ríkisstjórnarinnar? Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því.

Í öðru lagi er líka mjög athyglisvert að hér á Íslandi hefur verið um viku skeið óháður fulltrúi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er sérfræðingur í erlendum skuldum og mannréttindum. Hann var að gefa út sitt fyrsta álit þar sem hann kveður eftir daginn, sem sagt í dag, og fyrirsögnin er: Engan ber að skilja eftir út undan. Þar fær fyrrverandi ríkisstjórn býsna góð ummæli fyrir að hafa reynt að verja hagsmuni samfélagsins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Samfélag sem réttilega er stolt af sínu heildstæða félagslega velferðarkerfi og metur börn og fjölskyldur mikils“ — og þá kemur athugasemd sem er full ástæða til þess að taka vel eftir: „ætti ekki að þola að börn vaxi úr grasi við meiri fátækt en fullorðnir.“

Þetta er undirstrikað af utanaðkomandi aðila. Er það ekki þetta sem við erum að glíma við en horfum fram hjá í öllum ákvörðunum í tengslum við fjárlagafrumvarp og aðgerðir því tengdu? (Forseti hringir.) Það er athyglisvert að í einni setningu í nefndaráliti meiri hlutans með því máli sem við höfum verið að ræða hér í kvöld segir um (Forseti hringir.) ákveðna aðgerð að hún muni „koma nokkuð hart niður á“. Haldið þið að þeir hafi verið að tala um börn?(Forseti hringir.) Það er verið að tala um bílaleigur, en það er ekki minnst á þetta í sambandi við börn eða sjúklinga.