144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá Karli Garðarssyni, vaxtalækkunin mun ekki skila sér til almennings. Það er kannski besta sönnun þess hversu vondar og vitlausar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum eru. Eins mun fara um þær, lækkanirnar skila sér ekki, en hækkunin á matarskattinum mun skila sér með fullum þunga á heimilin í landinu.

Ég tek undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um málþóf. Það er þó skiljanlegt að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum svíði sú staða sem þeir eru komnir í eftir þá hörðu gagnrýni sem þeir héldu uppi hér á síðasta kjörtímabili, og þær athugasemdir sem Oddný G. Harðardóttir hefur gert, m.a. við það með hvaða hætti á að draga úr fjárfestingu á Suðurnesjunum og sköpun starfa þar. Þær eru einfaldlega hárréttar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum verða bara að lifa við það eins og við skuldastöðu Reykjanesbæjar.

Nú þegar við erum að koma að lokaafgreiðslu fjárlaganna, hvort sem það verður síðar í dag eða á morgun, lítur maður yfir þetta þing og það vekur nokkra athygli að fyrir utan fjárlögin og hin fjárlagatengdu mál er í raun engin mál að sjá í þinginu. Maður veltir fyrir sér hvernig á því stendur á öðrum þingvetri nýrrar ríkisstjórnar að hún hefur ekki fram að færa nein stefnumál á neinu málefnasviði, enga heildarlöggjöf á mikilvægum sviðum samfélagsins, enga sameiginlega sýn eða stefnu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í mikilvægum málaflokkum. Þetta er venjulega málefnaveturinn á kjörtímabilinu þegar menn koma fram með hugsjónir sínar og sín stóru stefnumál og leggja þau fram í þinginu og reyna að tryggja þeim framgang. (Forseti hringir.) En hér sést bara ekki eitt einasta mál nema ef vera skyldi náttúrupassinn sem, eins og (Forseti hringir.) allir vita, mun aldrei verða að lögum.