144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[12:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt sem hv. þingmaður segir í þessu sambandi er auðvitað vert umræðu og athugunar. Ég held að við séum sammála um afar marga þætti í þessu sambandi, en þegar við horfum aftur á spurninguna um gjaldmiðilinn vek ég bara athygli á því að það eru ótvírætt bæði kostir og gallar við það að tengja okkur stærra myntsvæði. Kostirnir geta einmitt falist í því að erlend fjárfesting verði greiðari en svo geta verið aðrir ókostir sem varða efnahagsstjórn í landinu sem vega annars staðar á vogarskálunum. Umræðan um gjaldmiðilinn snýst um miklu fleiri þætti en erlenda fjárfestingu. Það er alveg rétt að varðandi nýfjárfestingu í atvinnulífinu eru ákveðnar undanþágur varðandi gjaldeyrishöftin. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að auðvitað þurfum við að skoða starfsumhverfið heildstætt þegar litið er á skattalega þætti, þegar litið er á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrishöft og annað þess háttar og miklu fleiri þætti.

Tilgangur minn með því að koma upp í þessari umræðu um leið og ég styð það frumvarp sem hérna liggur fyrir var fyrst og fremst sá að vekja athygli á því að þegar við veltum fyrir okkur stöðu einstakra verkefna af þessu tagi er hollt fyrir okkur að velta heildstætt fyrir okkur starfsumhverfi atvinnulífsins í leiðinni.