144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp í andsvar við flokkssystur mína og biðst velvirðingar á því en erindið er brýnt. Ég er mjög tortryggin í garð áforma ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks varðandi einkavæðingu. Það liggur í loftinu vilji til að einkavæða ríkisfyrirtæki og almannaþjónustuna innan heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Það er hérna heimildargrein 7.5 í 6. gr. varðandi að heimila fjármálaráðherra að afsala, í samráði við utanríkisráðuneytið, flugbrautakerfi, tengdu akbrautakerfi og flughlöðum á Keflavíkurflugvelli til Isavia ohf. Svo er talað um að það þurfi að standast þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og svona, en þessir flokkar einkavæddu nú bankana og við vitum hvar hagsmunir almennings voru hafðir þar að leiðarljósi.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta mögulega afsal, hvaða afleiðingar kynni það að hafa fyrir íslenskt samfélag?