144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja út í RÚV, og ég hjó einmitt eftir því að RÚV yrði að aðlaga sig breyttum tíma. Í nefndaráliti meiri hlutans er talað um hver meginmarkmið RÚV eigi að vera. Það segir hér orðrétt:

„Til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að leita nýrra leiða í grunnþáttum stofnunarinnar, svo sem framleiðslu dagskrárefnis, húsnæðismálum og rekstri dreifikerfis. Samþætting fjölmiðla við aðra afþreyingu með breyttum fjarskiptum skapar ný tækifæri við miðlun á efni …“

Það sem ég skil ekki er: Veit meiri hlutinn eitthvað meira um þetta mál en stjórn RÚV, sem kom á tveggja tíma fund fjárlaganefndar í síðustu viku? Hvað er verið að meina með því að aðlaga sig breyttum tíma? Þýðir það að ekki þarf lengur að framleiða innlent efni eða gera fréttaskýringarþætti, senda út veðurfréttir eða vera með Rás 1? Í hverju felst hagræðingin? Það skil ég ekki. Eru einhverjar leiðir þarna úti til að reka útvarp og sjónvarp sem við erum ekki búin að uppgötva?