144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það að ég er ekkert sérstaklega ánægður með það að þurfa að koma hérna í enn eina ræðuna um fjárlög, 3. umr. fjárlaga, en ég ætla að nota þessar fimm mínútur og trúi því og treysti að sá tími verði m.a. notaður til að reyna að koma fram lagfæringum á því sem við höfum hér nokkur gert að umtalsefni og berum fyrir brjósti, þ.e. 30 millj. kr. fjárveitingu til Háskólans á Akureyri.

Nú er það ekki svo, virðulegi forseti, að breytingartillaga okkar eða krafa sé um að veita meira fé til Háskólans á Akureyri að þessu sinni, þótt sannarlega sé þörf á því, við vildum vera heiðarleg hvað það varðaði og setja sömu tölu inn. En það er skýlaus krafa okkar að lagfæra þá fádæma lögskýringu sem sett er inn í breytingartillögu meiri hlutans við 2. umr. Meiri hluti fjárlaganefndar, og því miður hefur komið í ljós er sennilega mikill minni hluti innan meiri hlutans, kannski ekki nema einn þingmaður, stendur í vegi fyrir að þessi texti verði lagfærður og við förum að lögum um háskóla eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti mjög vel áðan, að við á Alþingi séum ekki með fjárveitingu að segja háskólum eða stofnunum með fjárveitingu nákvæmlega fyrir hvað gera skuli eins og er í textanum.

Sú ályktun virðulegi forseti, sem háskólaráð Háskólans á Akureyri sá sig nauðbeygt til að setja fram í dag, koma saman í dag og gera ályktun og senda, lýsir því náttúrlega hvað málið er alvarlegt. Þess vegna vil ég trúa því enn þá að að því sé unnið við formann fjárlaganefndar að fá þessum texta breytt. (Gripið fram í.) Ég trúi ekki öðru, virðulegi forseti, en að þeir sem vilja auka veg og virðingu Alþingis beiti sér fyrir því að þessi furðulegi texti sé tekinn út og honum breytt.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, og ég hvet hv. formann fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur, sem hér gengur hjá, að koma í ræðustól hér á eftir og leysa þennan hnút og við getum þá gengið til atkvæða og klárað þingstörfin. (Gripið fram í: …um þinglok.)

Ég vona og trúi því, vegna þess sem hv. þingmaður segir að búið sé að sameinast um þinglok, að menn geri sér grein fyrir því að þetta var þar inni. Þetta eru fádæma flaustursleg vinnubrögð, ólíðandi vinnubrögð og ófagleg, sem ég vil að hv. þingmaður kippi til baka og leiðrétti. Það er mjög auðvelt. Mjög auðvelt. Þess vegna er það mér mjög á móti skapi, virðulegi forseti, að taka þátt í áframhaldandi umræðum um fjárlög vegna þess að ég hef í raun og veru lokið mínum umræðum með 15 mínútna ræðu minni við 3. umr. Þar fór ég í gegnum fjóra málaflokka, þ.e. Háskólann á Akureyri, málefni heilbrigðisþjónustunnar, sérstaklega Landspítalans með tilliti til breytingartillagna sem minni hlutinn leggur fram, sem eru mjög faglegar og góðar og settar fram til þess að auðvelda starfsemi Landspítalans og koma til móts við hann, málefni Vegagerðarinnar og málið sem varðar Isavia, sem er líka samgöngumál, og er til styrkingar og lagfæringar á flugvöllum á landsbyggðinni sem hafa mátt líða fjárskort undanfarin ár eins og svo margar aðrar stofnanir.

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki öðru en að brugðist verði við af þeim sem vilja breyta þessum texta og eru sammála okkur sem erum andvíg honum og andvíg því að meiri hluti fjárlaganefndar skipti sér svona af skólastarfsemi Háskólans á Akureyri með því að binda þetta inn og ýmislegt sem ég hef heyrt þar á eftir um það sem ég get engan veginn sætt mig við. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að alþingismenn hagi sér á þennan hátt. Þess vegna ítreka ég það og hvet málsmetandi menn sem geta haft áhrif hér að fá þessum texta breytt. Það er einfalt með smáyfirlýsingu úr ræðustól Alþingis. Þá er málið leyst.