144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni. Við bárum þá von í brjósti að við gætum lent þessu máli. Þetta snýst um texta sem fylgir fjárframlagi og kom, að mig minnir, inn í fjáraukalögum 2013 þar sem rannsóknarmissiri við Háskólann á Akureyri höfðu verið sett til hliðar í niðurskurði þar sem stofnunin gerði sitt allra besta til að standast fjárlög sem og hún hefur gert.

Ósk þeirra var að fá þetta framlengt, þ.e. í rannsóknarmissiri kennara sem eru mjög mikilvæg fyrir skólastarfið í heild. Ekki var verið að biðja um fjármuni í heimskautanámið og ef þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er svona mikið í mun að það verði þá þarf bara að setja verulega fjármuni í það og hefja stórsókn eins og sagt var í kvöld.

Virðulegi forseti. Því miður kom bréf frá háskólaráði og rektor í dag þar sem staðfestur er skilningur okkar á því að ekki hafi verið haft samráð við hann um eitt eða neitt varðandi þetta mál. Því er það miður að sú skuli vera niðurstaðan að meiri hlutinn ákveði að brjóta gegn lögum um framhaldsskóla og akademískt frelsi.