144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er í svona atkvæðagreiðslum og umræðum sem við sjáum forgangsröðun þeirra sem hér sitja og ég verð að segja alveg eins og er að mér er algerlega óskiljanleg sú meinloka hjá stjórnarmeirihlutanum að fella niður sykurgjaldið svokallaða. Það er fullkomlega eðlilegt að hafa slíkt gjald vegna þess að það er algerlega ljóst að það hefur áhrif á þriðja aðila, þ.e. það fellur aukinn kostnaður á heilbrigðiskerfið eftir því sem meiri sykurs er neytt. Þess vegna er eðlilegt að halda slíku gjaldi og við leggjum hér til að andvirði þess fari í heilbrigðiskerfið sem þarf svo sárlega á því að halda. Það eru kjaradeilur í heilbrigðiskerfinu, það eru uppsagnir og þar er mikil vá fyrir dyrum.

Hér er verið að leggja til að setja peninga í Landspítala – háskólasjúkrahús, Sjúkrahúsið á Akureyri, í geðheilbrigðismál, heilsugæslur og heilbrigðisstofnanir um land allt og það er það sem stjórnarmeirihlutinn er hér að fella. (Forseti hringir.) Það er ekkert að marka orð stjórnarmeirihlutans þegar hann segist vera að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. (Forseti hringir.) Við sjáum það hér rautt á grænu hver forgangsröðun hans er.