144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fjárlög ársins 2015 leggja grunn að áframhaldandi stöðugleika í landinu. Það er ljóst að okkar bíða áfram mjög krefjandi úrlausnarefni, sérstaklega vegna mikilla skulda ríkissjóðs. Það er tímabært að horfa á efnahagsreikning ríkisins og leita leiða til að greiða niður skuldir með sölu eigna eins og boðað er í þessu frumvarpi, að selja fjármálalegar eignir til að létta á vaxtabyrðinni og greiða til baka lán sem tekin voru til að endurreisa fjármálakerfið.

Í fjárlagafrumvarpinu og tengdum málum er sömuleiðis létt undir með heimilunum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á tekjuhlið frumvarpsins eru til þess að auka tekjur ríkisins. Það er meira lagt á herðar fjármálageirans í landinu og um leið skapað svigrúm til að létta undir með heimilunum. Með þessu er stutt við áframhaldandi stöðugleika. Það er spáð lágri verðbólgu á næsta ári, vaxandi kaupmætti almennings annað árið í röð. Á þessu ári er kaupmáttur að vaxa um 5%. Hann heldur áfram að vaxa á næsta ári. Svona munum við skref fyrir skref byggja áfram upp landið okkar góða.