144. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[22:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir hversu greiðlega hefur gengið að afgreiða þetta mál á lokadögum þingsins fyrir jólahlé. Það er að mínu mati mjög mikilvægt og það er gott að finna samstöðuna í þinginu um að samþykkja það fyrir jól til að tryggja að víxlverkanir á milli almannatrygginga og lífeyrissjóðanna mundu ekki hefjast upp á nýtt.

Við erum síðan að vinna að heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu og ég vonast eftir því að fá niðurstöðu þeirrar vinnu fljótlega á nýju ári. Þar treysti ég á að við getum stigið frekari skref til að bæta hag þeirra sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun í gegnum almannatryggingakerfið.