144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem mig langar til að gera að umtalsefni vegna orðaskipta í þinginu í gær þar sem hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hélt því fram að því miður hefði engin efnisleg umræða farið fram um viðræðurnar og kosti og galla Evrópusambandsaðildar. Af því tilefni minni ég á að á síðasta ári komu tvær efnisþykkar skýrslur til umræðu í þinginu og í samfélaginu, önnur frá Alþjóðamálastofnun og hin frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Það er því kannski ekki furða að menn spyrji sig á hvaða plánetu hæstv. fjármálaráðherra hafi verið staddur þegar sú umræða fór fram og hvort sjálfstæðismenn muni eftir því sem gerðist daginn eftir að síðari skýrslan, þ.e. skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, var lögð fram. Þá var flutt hér tillaga um að slíta viðræðunum við Evrópusambandið, einum degi eftir að sú efnismikla og þykka skýrsla var lögð hér fram.

Í annan stað vil ég tala um það sem er gjarnan rökstuðningur Sjálfstæðisflokksins fyrir stuðningi sínum við hina svokölluðu leiðréttingu. Jú, að um það hafi verið kosið í kosningunum, að það hefði verið skýrt umboð til að ráðast í leiðréttinguna. En um hvað var kosið þegar kom að Evrópusambandinu í síðustu kosningum? Lagði Sjálfstæðisflokkurinn það þá fram við þjóðina að hann hygðist standa hér að tillöguflutningi um að slíta viðræðum við Evrópusambandið? Þvert í mót. Það var lagt fyrir þjóðina að farið yrði fram með þjóðaratkvæðagreiðslu og að aðkoma þjóðarinnar að ákvörðun um framhald málsins yrði tryggð.

Af þessum tveimur dæmum sem ég hef nefnt hér má helst ráða að ekki standi steinn yfir steini í málflutningi Sjálfstæðisflokksins um þessi efni.