144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

umferðarlög.

102. mál
[15:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um breytingu á umferðarlögum með breytingartillögum frá umhverfis- og samgöngunefnd þar sem tókst mikil sátt um þessi mál sem sum hver hafa valdið deilum milli manna. Ánægjulegt var hversu starfið gekk vel í nefndinni og hversu góðri lendingu við náðum í þessum málum og vil ég nefna tvö mál, hið fyrra er endurmenntun atvinnubílstjóra. Við teljum okkur hafa gert málið þannig úr garði að það muni ekki íþyngja um of einyrkjum og þeim sem búa í dreifbýlinu og tryggja það að slíkt nám geti farið fram í fjarnámi gegnum tölvuna eins og gengið hefur svo vel í almennu ökunámi.

Hitt sem ég vil nefna er að nefndin var sammála um að umferðareftirlit sem Samgöngustofa heldur úti núna eigi betur heima hjá lögreglunni til að nýta þá starfskrafta mun betur og auka sýnileika löggæslunnar og nýta fjármunina betur. Ég fagna þessu og legg til að þetta verði allt samþykkt.