144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:25]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þekki ágætlega til samræmdra könnunarprófa enda búinn að starfa sem grunnskólakennari í 14 ár svo að ég upplýsi ráðherrann um það, hann þarf nú ekki að upplýsa mig um tilurð þeirra prófa eða hvernig þeim er beitt.

Ég vildi hins vegar bara, eins og ég sagði hér áðan, halda því á lofti að það var óánægja með þessa sameiningu, burt séð frá því hvort markmiðin með henni hafi verið góð. Ég var heldur ekki að meina að Námsgagnastofnun ætti að fara undir Námsmatsstofnun. Það sem ég átti við er að starf nýrrar Menntamálastofnunar fari í auknum mæli að taka mið af samræmdum könnunarprófum, það má lesa það aðeins út úr frumvarpinu og það veldur mér ákveðnum áhyggjum.

Að lokum: Já, vissulega er Námsmatsstofnun ríkisstofnun. Engu að síður hefur oft, þegar frumvörp af þessu tagi hafa komið fram, þó að um sé að ræða ríkisstofnanir, fylgt því kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin. Ég spurði ráðherrann hvort það hefði verið kannað og hefði viljað fá svar við því hvort það hafi verið gert.