144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan létta undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar, það er einmitt fyrirkomulagið, að það verði ekki stjórn. Það eru rök fyrir því vegna þess að það er einmitt verið að útvista eða færa stjórnsýsluverkefni frá ráðuneytinu inn í þessa stofnun og þá er ekki að mínu mati eðlilegt að það sé stjórn þar á milli. Það verður starfandi forstjóri sem er ráðinn til fimm ára, en sökum þess hvers eðlis verkefnin eru þá er ekki eðlilegt að sérstök stjórn sé þarna á milli.

Hvað varðar hæfi eða hæfniskröfur vil ég, virðulegi forseti, benda á að í 2. gr. stendur, með leyfi forseta: „Hann skal hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.“ Þetta er tiltölulega með almennum hætti, en þó er gerð ákveðin menntunarkrafa og hvers eðlis hún á að vera.

Síðan hvað varðar árafjölda er ekki kveðið á um það í þessu lagafrumvarpi að takmark sé þar á.