144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[16:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra og ég tek undir með hv. þm. Hjálmari Boga — ég man ekki í augnablikinu hvers son hann er …

(Forseti (ValG): Hafliðason.)

… Hafliðasyni fyrir þá áherslu sem birtist í hinum ýmsu samræmdu prófum og öðru slíku, það er svona kannski fullmikið, en það er hluti af þessari stofnun.

Það kemur fram í 6. gr. þar sem talað er um að ívilna fámennum skólum varðandi námsgögn án endurgjalds, ef ég skil þetta rétt, þ.e. hvernig er miðlað og staðið að úthlutun þeirra. Í hverju felst það? Hvar eru mörkin dregin við fámenna skóla? Ég hef áhyggjur af því að svolítið sé verið að huga að skilgreiningu á rekstrarhagkvæmni en ekki endilega einhverju öðru þannig að námsframboðið verði áfram fjölbreytt.

Síðan hef ég auðvitað ákveðnar áhyggjur af því að fram kemur að stofnunin megi afla sér sértekna, taka gjald fyrir sérþjónustu og það eigi að mæta sölu. Hvaða gögn sér ráðherrann fyrir sér að við seljum á markaðslegum forsendum í gegnum þessa stofnun? Svo má velta því líka fyrir sér, er þetta eitthvert millistig? Er það óþarft millistig að vera með stofnun á milli ráðuneytis og skóla? Hefur eitthvað verið hugað að því, af því að nú hefur þetta fyrst og fremst gengið út að sinna grunnskólanum? Er einhver tenging komin við framhaldsskólana sem hönd er á festandi? Þetta eru svona nokkrir hlutir.

Ég hef áhyggjur af því að það sé stýring í áttina, hvað eigum við að segja, að því að námsgögn verði útvistuð með ákveðnum hætti. Það kemur fram í einhverjum greinum, auðvitað höfum við verið að kaupa þjónustu varðandi ýmislegt og meðal annars (Forseti hringir.) ýmsar úttektir. Ég kem að því í síðara andsvari.