144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú mun þetta frumvarp fara til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar. Þar munu menn velta við öllum steinum. Eins og ég sé þetta fyrir mér — og hæstv. ráðherra fór yfir það hér áðan — er ekki bara verið að sameina tvær stofnanir, heldur er verið að taka mjög stóran hluta, að mér sýnist, úr starfsemi ráðuneytisins og færa undirstofnun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það. Hvað verður eftir í ráðuneytinu hvað varðar menntamál? Hvað mun sitja þar eftir?

Talað er um það í skýringum með frumvarpinu að mikil sérþekking tapist út úr ráðuneytinu. Ég held að það sé augljóst þegar umfangið er skoðað, það sem á að fara undir þessa nýju stofnun. Nú er ég ekki að segja að það sé ekki gott, en það þarf alla vega að skoða hvað stendur eftir í ráðuneytinu. Hvað stendur líka eftir af ábyrgðinni? Hér er talað um frumkvæðisskyldu stofnunarinnar og ég bið hæstv. ráðherra að fara betur yfir hvað það þýðir. Er verið að taka ábyrgð af ráðuneytinu? Hvernig verður þessi verkaskipting?

Hér er líka talað um mikilvægt hlutverk sem er greining og birting upplýsinga um fræðslumál, að það eigi að vera í samstarfi við Hagstofuna, sveitarfélög og fleiri stofnanir. Er þetta hugsað þannig að þessi stofnun eigi að safna saman upplýsingum, á hún líka að taka við hlutverki Hagstofunnar sem hefur séð um að safna saman upplýsingum um skólamál?