144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[17:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hafa verið um þetta mál og taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að um er ræða mikilvæg mál sem ég veit að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun kanna vel og rýna, bæði það mál sem við ræddum áðan um Menntamálastofnun og eins það mál sem við ræðum nú. Ég fullvissa hv. þingmann um að það er ekki af léttúð sem það mál er unnið. Það hefur þvert á móti átt sér langan aðdraganda, er eitt af þeim fyrstu málum sem ég setti af stað í ráðherratíð minni og það hefur farið fram mikil undirbúningsvinna vegna þeirrar stofnunar.

Þá að því máli sem er til umræðu. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma aðeins inn á. Fyrst, svo ég slái botn í þá umræðu sem hér var, varðandi stöðu foreldra til að velja skóla fyrir börn sín. Það er alveg rétt að í þeim sveitarfélögum þar sem er aðeins einn skóli starfandi og ekki hægt að koma við fleiri skólum vegna íbúafjölda getur það í sjálfu sér verið algjörlega óbærilegt fyrir íbúa að hafa ekki annað val en þann skóla sem sveitarfélagið rekur. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, t.d. hverjir eru þar í forustu, einstaklingar, það geta verið uppi átök sem snúa að þeim einstaklingum o.s.frv. Það eru fjöldamargar ástæður sem geta leitt til þess að það getur verið þungbært fyrir einstakling að þurfa að setja barn sitt í slíkan skóla sem rekinn er af sveitarfélagi. Með öðrum orðum, það er ekkert val.

Það sem skiptir máli eru ákvæði 2. gr., a, b og c, sem ég rakti í upphafsræðu minni og eins í andsvörum. Ég hafði áður gert að umræðuefni a-lið 2. gr., um stöðu skólanefnda sveitarfélagsins, en ég vil líka vekja athygli á c-liðnum, með leyfi virðulegs forseta:

„Verði rekstraraðila ókleift að efna skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi eða eftirlit sveitarfélags eða ráðuneytis með skólastarfi leiðir í ljós verulega annmarka á skólastarfi skal gera ráð fyrir að sveitarfélag geti yfirtekið starfsemina í því skyni að tryggja samfellu í skólahaldi. Við yfirtöku starfseminnar verði unnt að ganga inn í samninga rekstraraðila, svo sem við starfsfólk, um húsnæði og tækjabúnað.“

Það er líka mikilvægt að hafa þetta í huga.

Ég tel að hér sé gætt allra þeirra sjónarmiða sem snúa að því að tryggja rétt og réttindi barnanna. Það er það sem þetta mál snýst um. Það er nefnilega ekki svo að verið sé að taka afstöðu til þess hvort þetta fyrirkomulag, þ.e. að útvista skólahaldinu, eigi rétt á sér eða ekki eða sé heimilt eða ekki.

Ég vil í því sambandi vísa til athugasemda við lagafrumvarpið á síðu 3. Þar er forsaga þessa máls rakin. Hún er, eins og ég hafði tæpt á, að það kom upp álitamál um hvort sveitarstjórn væri heimilt við þær aðstæður sem ég hef áður lýst, þar sem einungis einn skóli er starfandi, að útvista slíkri starfsemi. Afstaða mennta- og menningarmálaráðuneytisins var sú að svo væri ekki, það væri ekki heimild í lögum, og þá er horft til 100. greinar sveitarstjórnarlaganna og fleiri lagagreina og ég vísa til athugasemda, ég ætla ekki að lesa þær upp. Það var sem sagt álitamál hvort þetta væri yfir höfuð heimilt. Niðurstaðan hjá ráðuneytinu var að veita tilraunaleyfi en augljóst var að ráðuneytið taldi að þetta væri ekki heimilt.

Innanríkisráðuneytið gaf aftur á móti út álitsgerð og þar var komist að öndverðri niðurstöðu. Innanríkisráðuneytið taldi að sveitarstjórninni væri þetta heimilt. Afstaða innanríkisráðuneytisins var sú að 5. gr. laga um grunnskóla stæði ekki í vegi fyrir að sveitarfélögum væri heimilt að gera samninga við einkaaðila um að þeir tækju að sér rekstur grunnskóla sveitarfélags í heild sinni.

Af því að þessi deila var uppi og mismunandi skoðanir og af því að fleiri sveitarfélög höfðu lýst yfir áhuga á því að fara sömu leið og hafði verið farin, m.a. á Tálknafirði, tók Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að sér að fjalla um þetta álitaefni. Niðurstaða hans var, ég les upp úr athugasemdunum, með leyfi virðulegs forseta:

„… að fallast bæri á að 43. gr. grunnskólalaga, um sjálfstætt starfandi grunnskóla og samninga rekstraraðila slíkra skóla við sveitarfélög, væri sérákvæði gagnvart 100. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Almennari reglan víki fyrir sérreglunni og starfsemi sjálfstætt starfandi grunnskóla og heimildir sveitarfélaga til að semja við einkaaðila um rekstur grunnskóla skuli því fullnægja fyrirmælum 43. gr. grunnskólalaga.“

Með öðrum orðum. Þessi niðurstaða liggur fyrir. Það sem þetta frumvarp gerir er að tryggja með lagasetningu stöðu þeirra barna sem eru í skóla sem er rekinn á þennan hátt. Það er það sem þetta frumvarp gengur út á.

Það er spurt og hefur verið spurt ítrekað: Hvers vegna núna, af hverju ekki að bíða með þetta þar til síðar? Svarið er augljóst: Vegna þess að þessi starfsemi er nú þegar komin af stað og líklegt er að fleiri sveitarfélög kunni að æskja þess að fara af stað með þetta. Þá tel ég mjög mikilvægt að lagagrundvöllurinn sé skýr, til þess að tryggja hagsmuni barna, og vísa ég aftur til töluliðanna í 2. gr., a, b og c, þar sem kveðið er á um þessa hluti.

Ég vil taka þetta fram af því ég tel að þetta skipti máli til þess að skýra nákvæmlega hvað er á ferðinni. Ég ítreka að það er ekki verið að taka afstöðu til þess hvort þetta sé heimilt. Sú niðurstaða liggur í raun og veru fyrir. Hér er verið að leggja grunn að því hvernig best sé að standa að þessu.

Hæstv. félagsmálaráðherra velti upp áhugaverðu máli um heimaskóla og möguleikum á því að afnema í raun skólaskyldu, þá koma kannski um leið upp spurningar um fræðsluskyldu. Rétt er að taka það til að nú þegar er í lögum kveðið á um að slíkt er mögulegt, en með mjög ströngum skilyrðum. Þau eru mjög ströng. Það er auðvitað alveg til umhugsunar hvort ástæða sé til þess að létta þar eitthvað kvöðum. Ég hef ekki tekið neina afstöðu til þess máls en það er sjálfsagt að ræða það, m.a. í ljósi þess að menntunarstig þjóðarinnar hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum og áratugum þannig að mun fleiri foreldrar eru í fullum færum til að sinna slíku. Aftur á móti koma upp önnur sjónarmið, t.d. réttur barna til þess að vera í skólasamfélaginu og njóta samvista við önnur börn í skóla, sem er gríðarlega mikilvægt atriði í þroskaferli barnsins, og önnur slík sjónarmið sem skipta máli. Þetta er því ekki einfalt mál. Ég fann það til dæmis á ferðum mínum um landið þar sem ég var að kynna hvítbók um umbætur í menntamálum, ég ætla ekki að segja að þetta sé komið upp alls staðar eða mjög víða en á nokkrum fundum komu upp spurningar hvað þennan þátt varðar. Mér sýnist svo að það verði vaxandi athygli á þessu máli á næstu árum.

Í sjálfu sér er ekki mikið fleira sem ég vil bæta við að þessu sinni. Ég veit það og treysti að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni fjalla vandlega um þessi mál og vonandi klárum við og afgreiðum þetta frumvarp sem lög sem fyrst frá þingi. Ég tel að mikilvægt sé að þetta verði að lögum sem fyrst.