144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

örnefni.

403. mál
[18:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins um frumkvæðisréttinn. Ef örnefni til dæmis stangast á við íslenska málvenju á nefndin að geta tekið það upp, en það getur auðvitað verið alveg fullkomlega sjálfsprottið og eðlilegt að örnefni séu ekkert í tengslum við íslenska málvenju. Það getur verið í fínu lagi. Það eru til dæmis hús í Vestmannaeyjum sem bera erlend borgarnöfn, þau eru ákveðin tegund örnefna. London er til að mynda frægt hús þar.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra út í eina setningu í umsögn fjármálaráðuneytisins, hvernig hann skilji hana eða hvort hann yfir höfuð skilji hana. Þar segir: Nýir nefndarmenn þiggja laun á sama hátt og nefndarmenn þannig að breytt fyrirkomulag mun ekki leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Nú er verið að fjölga nefndarmönnum úr þremur í fimm þannig að ég geri mér grein fyrir því að þetta eru ekki stórkostlegar upphæðir, en engu að síður gerir maður þá kröfu að þetta sé skýrt og maður viti nákvæmlega hvaða kostnaðarauki þetta er. Hvernig skilur hæstv. ráðherra þetta?