144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er verið að ýja að því að atvinnuveganefnd fari ekki að lögum með breytingartillögum sínum. Í lögum um rammaáætlun kemur fram að verkefnisstjórn er ráðgefandi nefnd gagnvart ráðherra í þessum málaflokki. Verkefnisstjórn gerir tillögu til ráðherra um virkjunarkosti og hvernig þeir eiga að raðast. Verkefnisstjórn gerði í þessu tilfelli tillögu um einn virkjunarkost í nýtingarflokk. Ef ráðherra vill gera breytingar á því þarf hann að senda það í umsögn. Hann sendir þetta óbreytt til þingsins.

Ef það hefði verið vilji löggjafans á sínum tíma þegar lög um rammaáætlun, vernd og nýtingu, voru sett af hverju stoppaði þá ekki ferlið þar og ákvörðunin lá hjá ráðherra? Ef þingið mátti ekki sinna málsmeðferð þar sem málið er sent enn og aftur til umsagnar, öll viðtöl tekin, ef þingið mátti ekkert hreyfa við þessu af hverju var þá verið að senda málið til þingsins, ef það var vilji löggjafans að þingið ætti að stimpla óbreytt það sem kæmi frá ráðuneytinu í þessum efnum? (Forseti hringir.) Ég hafna því að við séum að raska ró manna. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál. (Forseti hringir.) Við sendum það til umsagnar og síðan mun í málsmeðferðinni verða ákveðið hvernig röðun verður háttað á þessum virkjunarkostum.