144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það verður að taka undir það sjónarmið að hér er ekki um hefðbundna þingmeðferð þessa máls að ræða. Í því máli sem við ræðum hér er um að ræða þingsályktunartillögu þar sem fyrri umr. um málið er lokið. Það er ein umræða eftir um málið og hv. þm. Jón Gunnarsson kýs að gera ekki efnisbreytingu á því. Hann kemur með fjóra virkjunarkosti til viðbótar við þá sem voru hér til umfjöllunar í fyrri umferð málsins. Í bæði skiptin þegar hann ákveður að gera þetta gerir hann það án þess að setja málið á dagskrá nefndarinnar, án þess að það liggi fyrir, heldur lítur hann svo á að hér sé um slíkt smámál að ræða að það megi bara smygla því einhvern veginn inn á milli dagskrárliða og afgreiða það á þremur, fjórum mínútum. Við verðum að gera alvarlegar athugasemdir við þetta og krefjast þess að gert verði hlé á fundi, forsætisnefnd fari yfir þetta mál og formenn þingflokka fundi um það með forseta. Það er algerlega ótækt að gera þetta (Forseti hringir.) með þessum hætti.